30.5.2008 21:27

Föstudagur, 30. 05. 08.

Þingi lauk um 02.20 í nótt. Ég va kominn í sund á venjulegum tíma 06.30 og síðan í qi gong 08.10.

Ríkisstjórn kom saman 09.30 og þar var rætt um jarðskjálftann í gær. Þeir Jón F. Bjartmarz og Víðir Reynisson komu á fundinn fyrir hönd almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra auk Þórunnar J. Hafstein, skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Þau gerðu grein fyrir atburðum gærdagsins. Ég lagði fram tillögu um að stofna þjónustumiðstöð í þágu íbúa á jarðskjálftasvæðinu í samræmi við ákvæði almannavarnalaga, sem alþingi samþykkti í gærkvöldi. Tillagan var samþkkt.

Maud de Boer-Buzuicchio, aðstoðar-framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, kom á minn fund um hádegisbil. Hún hafði verið á fundi tengslanets kvenna á Bifröst.

Klukkan 14.30 var ég á blaðamannafundi í Skógarhlíð með Jóni F. Bjartmarz og Víði Reynissyni, þar sem við kynntum ákvörðun ríkisstjórnarinnar um þjónustumiðstöð á skjálftasvæðinu.

Klukkan 16.00 var ég við Grandagarð og sjóminjasafnið Víkina um borð í varðskipinu Óðni. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, afhenti Guðmundi Hallvarðssyni, formanni hollvinasamtaka Óðins, varðskipið en það verður á morgun afhent sjóminjasafninu Víkinni til varðveislu. Flutti ég ávarp við athöfnina, sem Sigrún Magnúsdóttir safnstjóri stjórnaði. Þá söng lögreglukórinn. Ég skýrði frá því, að nú hefði nafnið Óðin verið gefið og þess vegna væri rétt að nýtt varðskip héti Þór.

Var ánægjulegt að ganga um Óðin og sjá hve skemmtilega og smekklega hefur verið búið um skipið sem safngrip. Ég þekki Óðin frá fornu fari frá því að ég var háseti þar um borð á fyrri hluta sjöunda áratugarins, þegar skipið var nýtt. Það hefur elst og varðveist vel.

Í Spegli hljóðvarps ríkisins ræddi Gunnar Gunnarsson við Sigurmar K. Albertsson lögfræðing um símahleranir kaldastríðsáranna og var Sigurmar að sjálfsögðu kynntur til sögunnar á þann veg, að treysta mætti óhlutdrægni hans. Sigurmar er sambýlismaður Álfheiðar Ingadótur, þingmanns vinstri/grænna, sem réðst að mér með offorsi í þingumræðum um hleranir 28. maí. Hvers vegna ætli Gunnar hafi valið Sigurmar til viðræðna um þetta deilumál?

Skrifin um hleranamálið taka á sig skrýtinn svip eins og hér má sjá. Víst er, að ég fer ekki varhluta af því, að sumum er ókleift að ræða þessi mál efnislega, af því að þeim er svo mikið í mun að reka hornin í mig. Hvað skyldi vandlætarinn Sigurður Þór annars segja um skrif Jónasar Kristjánssonar um föður minn? Undir hvað skyldi Sigurður Þór flokka þann hug, sem þar býr að baki?