Þriðjudagur, 20. 05. 08.
Í frásögn minni af Grænlandsferð um hvítasunnu sagði ég frá miklum hreindýrastofni Stefáns Hrafns Magnússonar í Isortoq. Birti ég þar tölur, sem Stefán Hrafn segir rangar. Í greinargóðu bréfi segist hann hafa leyfi fyrir 1477 ferkílómetra landi og Grænlandsstjórn setji engan staðal um fjölda hreindýra, það sé mál hans sjálfs hvort hann fylgi sjálfbærri beitarstefni eða dýr hans éti hann út á gaddinn.
Ég gat þess, að hreindýr kepptu við sauðnaut (moskuuxa) við byggðina Ivigtut um beitarland. Stefán Hrafn segir sauðnautin séu betur sett en hreindýr í fæðukeppni jórturdýra. 35 hreindýr frá sér hefðu farið á ís inn á sauðnautasvæði við Ivigtut, en 47 km eru frá býli Stefáns Hrafns til herstöðvarinnar í Grönnedal og Ivigtut, en aðeins eitt skref á milli lands hans og Ivigtut, sem verður í Nuuk-sýslu við stækkun sveitarfélaga frá með 1. janúar 2009 en Isortoq, býli Stefáns Hrafns, verður í syðsta sveitarfélaginu, Qaqorotoq-sýslu.
Stefán Hrafn er ekki sáttur við ákvörðun grænlenskra stjórnvalda um að koma á fót veiðisvæði 11 í Ivigtut. Þessa ákvörðun megi kenna við eignarnám frá sjónarhóli land- og dýraeigenda. Grænlenska veiðiþjóðin eigi erfitt með að viðurkenna, að dýr lúti eignarrétti og land beitar- og auðlindarétti.
Rannsóknir sýni, að 1477 ferkílómterar geti á þessum slóðum borið um 3400 hreindýr, hann eigi 2300 dýr í vetrarbeit og eftir burð á þeim tíma, sem ég var þarna á ferð, hafi dýrin líklega verið um 3600. Á svæði sínu sé rými fyrir 4800 hreindýr í sumarbeit.
Stefán Hrafn mótmælir sem sagt þeirri sögusögn, sem ég bar órökstutt á borð í frásögn minni, að hann hafi heimild fyrir 1800 hreindýrum en þau séu nú um 5000. Ég hef enga ástæðu til að rengja hann og birti leiðréttingu hans með glöðu geði, enda lék mér forvitni á að vita meira um þennan stórhuga hreindýrsbónda., sem hefur fjárfest tugmilljónir króna í útflutningssláturhúsi á býli sínu og selur afurðir sínar um heim allan. Sagt var frá því í Morgunblaðinu sl. haust, að hann hefði þá slátrað 1.100 dýrum. Stefáni Hrafni er að sjálfsögðu mikils virði, að ekki sé dregin sú mynd af búskap hans, að hann virði ekki kröfur um virðingu fyrir náttúrufari, dýrum og nágrönnum. Hér má lesa gamla grein um hann í Morgunblaðinu.
Úr því að ég ræði búskap er rétt að láta þess getið, að ein af þremur ám mínum, sem ég taldi týnda á fjalli, er komin í leitirnar þrílemb á bæ í Landeyjunum. Hinar tvær eru bornar, tvílembar, svo að nú eru tíu gripir í sauðfjárstofni mínum.