28.5.2008 21:37

Miðvikudagur, 28. 05. 08.

Í dag var rætt um hleranir utan dagskrár á alþingi. Hér er ræða mín við upphaf umræðnanna.

Fréttastofa sjónvarps ríkisins tók til við að ættfæra mig í fréttum sínum í kvöld væntanlega til að gefa þeim orðum Steingríms J. Sigfússonar, einkaviðmælenda fréttastofunnar um svokallað hleranamál, aukinn þunga, að ég sé ekki fær um að ræða málið, þar sem faðir minn var dómsmálaráðherra fyrir 50 til 60 árum og stóð ásamt öðrum lýðræðissinnum í köldu stríði við kommúnista, sem vildu beita valdi til að ná undirtökum í þjóðfélaginu.

Hvers vegna lét fréttastofan þess ógetið, að Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, sem fór mikinn í þingsalnum vegna hlerana í dag ætti ættir að rekja til þeirra, sem koma við hleranasöguna samkvæmt frásögn Kjartans Ólafssonar? (Helgi var ættfærður, sonur Úlfs Hjörvars, í fréttum sjónvarps ríkisins kl. 22.00.) Eða að Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri/grænna, sem réðst að mér af alkunnu offorsi í ræðustól á alþingi vegna hleranamálsins er dóttir Inga R. Helgasonar, sem var á sínum tíma innsti koppur í búri kommúnista og sósíalista á Íslandi og kallaður „gullkistuvörður“ þeirra? Hvers vegna fer fréttastofan í manngreinaálit í fréttatengdum ættfærslum sínum?

Hin sífellda skírskotun Steingríms J. Sigfússonar til þess, sem gerðist vegna hlerana í Noregi, stenst ekki. Hér á landi er upplýst, að löglega var staðið að öllum ákvörðunum um hleranir. Málinu er á annan veg farið í Noregi.

Hið fréttnæma við framgöngu Steingríms J. Sigfússonar í sjónvarpinu var, að hann skyldi taka sér fyrir hendur að verja málstað þeirra, sem voru tilbúnir til að hafna lýðræði á tímum kalda stríðsins í því skyni að ná hér völdum undir handarjaðri Sovétríkjanna og Austur-Þýskalands.

Það er álíka illa rökstutt að telja mig ekki hæfan til að fjalla um þetta mál og telja réttmætt, að íslensk stjórnvöld eigi að biðjast afsökunar fyrir hönd þeirra dómara, sem heimiluðu lögreglunni að hlera síma.