18.5.2008 21:38

Sunnudagur, 18. 05. 08.

Það rigndi ekki, svo að ég notaði morguninn til að slá garðblettinn í Fljótshlíðinni, sem er í sjálfu sé nokkurt fyrirtæki, þegar sprettan hefur verið jafngóð og raun er.

Síðan litum við á tvö nýborin lömb okkar. Þau eru örnótt eins og mamman og auðþekkjanleg.

Á heimleið litum við inn í Tryggvaskála á Selfossi. Þar hefur Gunnar Sigurgeirsson sett upp ljósmyndasýningu, sem sýnir starf lögreglunnar og einnig flóð í Ölfusá. Var stöðugur straumur fólks stundina, sem við dvöldumst þar okkur til ánægju. Ber að fagna þessu framtaki og ekki síður því, að unnið er að varðveislu Tryggvaskála.

Ég man ekki, hvenær ég kom fyrst í Tryggvaskála. Það hlýtur að hafa verið á stjórnmálafundi með föður mínum. Einnig minnist ég þess, að hafa einhvern tíma stansað þar á ökuferð fyrir óralöngu og fengið sandköku með rjóma.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar, var skelegg að venju og lét ekki neinn bilbug á sér finna í Mannamáli hjá Sigmund Erni á Stöð 2.