24.5.2008 22:10

Laugardagur, 24. 05. 08.

Úrslitin í Evróvisjón-keppninni sýna áhrif minnihlutahópa innan einstakra Evrópuríkja. Þeir taka sig saman hver í sínu landi og greiða gamla ættlandinu atkvæði. Er ekki best að taka upp gamla fyrirkomulagið, að sérfróðir menn leggi mat á framlag þjóðanna?

Rússinn hafði heimsmeistara í skautadansi með sér og 300 m. kr. Stradivarius-fiðlu, sem naut sín ekki vel vegna hljóðblöndunar. Sigmar Guðmundsson, kynnir sjónvarpsins í Belgrad, taldi forvitnilegast við rússneska söngvarann, hvort hann mundi fara úr skyrtunni í lok lagsins - sem hann gerði ekki en vann samt.

Regína Ósk og Friðrik Ómar stóðu sig vel. Fengu 12 stig frá Dönum. Hlutu 14. sæti. Ég las einhvers staðar haft eftir kunnáttumanni, að við gætum vel við unað, yrðum við fyrir ofan 16. sæti.

Þrílembda ærin mín hefur það gott með afkomendum sínum.  Góður nágranni sagðist ekki hrifinn af þrílembum, en honum þótti lömbin mín lífvænleg og við töldum, að  þeim væri öllum fyrir bestu að komast sem fyrst í góða haga - og þeir eru góðir í Fljótshlíðinni núna, þar sem gróður er óvenju mikill. 

Það er dálítið skrýtið að hafa búið við það í allan vetur, að ærin væri líklega týnd á fjöllum og sjá hana síðan sprelllifandi með þremur lömbum. Ég þakka þeim, sem gættu hennar í Landeyjunum og létu síðan vita af henni.