27.5.2008 22:48

Þriðjudagur 27. 05. 08.

Enn sannaðist í eldhúsdagsumræðum í kvöld, hve stjórnarandstaðan má sín lítils og hefur í raun ekkert til málanna að leggja. Hið eina, sem kom á óvart hjá henni, var, að þau Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, og Þuríður Backmann, þingmaður vinstri/grænna, skyldu hefja ræður sínar með vísan til sama ljóðs Einars Benediktssonar um að aðgát skuli höfð í nærveru sálar. Var þetta tilviljun? Átti þetta að sanna, hve samstillt stjórnarandstaðan er? Hvers vegna þetta ljóð?

Kjartan Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans og framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, birtir í Morgunblaðinu í dag samantekt sína upp úr gögnum um hleranir, sem hafa verið lögð á Þjóðskjalasafn. Í raun kemur ekkert nýtt fram í þessari grein. Nokkrir fjölmiðlamenn töldu þó ástæðu til að fylgja henni eftir og þá sérstaklega því agni Kjartans, að ég bæðist afsökunar vegna þess, sem fram kom í grein hans. Tilgangurinn er enn að teygja á umræðum um þetta þaulrædda mál.

Áhugamenn um umgjörð dómsúrskurðanna, sem Kjartan nefnir, ættu að lesa grein í hausthefti Þjóðmála árið 2006 eftir dr. Þór Whitehead: Smáríki og heimsbyltingin - Um öryggi Íslands á válegum tímum. Greinin er kynnt á þann hátt af ritstjóra Þjóðmála, að Þór segi frá viðbrögðum íslenska ríkisins við hættunni sem lýðræðisskipulaginu stóð af byltingarstarfsemi og ofbeldisverkum á tímum kreppu, heimsstyrjaldar og kaldastríðsins.

Í raun er dæmalaust léleg blaðamennska að ræða grein Kjartans og sleppa umgjörðinni og þeim kostum, sem blöstu við stjórnvöldum.

Viðbrögðin við því, sem ég svaraði mbl.is urðu ágætum bloggara til að setja þetta á síðuna sína.