Föstudagur, 02. 05. 08.
Dómari við High Court í Englandi hefur ákveðið að taka til meðferðar, hvort bresku ríkisstjórninni beri að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon-sáttmálann. Stuart Wheeler, milljónamæringur og stuðningsmaður Íhaldsflokksins, lagði málið fyrir dómarann á þeim grunni, að ríkisstjórnin hefði lofað að bera stjórnarskrá Evrópusambandsins (ESB) undir þjóðaratkvæði, Lissabon-sáttmálinn jafngilti slíkri stjórnarskrá. Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, hefur hafnað þjóðaraatkvæðagreiðslu, enda breyti Lissabon-sáttmálinn engu um stjórnarhætti í Bretlandi.
346 breskir þingmenn gegn 206 samþykktu Lissabon-sáttmálann í mars eftir sex vikna umræður. Sáttmálinn er nú til meðferðar í lávarðadeild þingsins og er stefnt að atkvæðagreiðslu þar 11. júni um það, hvort efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu, en málið verður flutt fyrir High Court 9. og 10. júní.
Íhaldsflokkurinn, stórsigurvegari í sveitarstjórnarkosningum í Englandi og Wales í gær, hefur sagt, að hann sé andvígur því að fullgilda Lissabon-sáttmálann.
Þegar þetta er skrifað sýnist fullvíst, að íhaldsmaðurinn Boris Johnson, fyrrverandi ritstjóri The Spectator, sigri Ken Livingstone, öfgafullan vinstrisinna og vin Hugos Chavez, í baráttunni um borgarstjórastólinn í London. Því er spáð að Livingstone mun beina reiði sinni gegn Gordon Brown og saka hann um að grafa undan sér.