25.5.2008 16:11

Sunnudagur, 25. 05. 08.

Í Morgunblaðinu í dag er birt loftmynd af byggingaframkvæmdum Háskólans í Reykjavík milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar. Myndin sýnir vel, hve nærri aðstöðu Landhelgisgæslu Íslands á flugvellinum er farið auk þess sem þrengt er að Öskjuhlíðinni. Á myndasíðu minni hér á síðunni er að finna myndir, sem tengjast þessum miklu framkvæmdum.

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá niðurstöðu könnunar þess efnis, að Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar, njóti yfirgnæfandi stuðnings sem næsti borgarstjóri sjálfstæðismanna. Ég óska henni til hamingju með þetta verðskuldaða traust.

Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, virðist eftirlæti hjá fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Hvað eftir annað hefur verið sagt frá því í dag, að hann flytji breytingartillögu við frumvarp frá mér, sem verður til umræðu á alþingi á morgun. Vill hann lögleiða refsingu við kaup á vændi en tillögu þess efnis var hafnað á alþingi í fyrra. Alþingi samþykkir lög en samt segir Atli af alkunnri nákvæmni í samtali við hljóðavarpið, að dómsmálaráðuneytið hafi afnumið refsingu við vændi. Jafnframt segist Atli hafa það frá lögreglunni, að vændi hafi aukist, eftir að alþingi samþykkti breytingar á hegningalögum á síðasta ári. Fréttamanninum dettur ekki í hug að spyrja Atla, hvernig lögregla haldi tölfræði um refsilaust athæfi. Miðað við ónákvæmni í frásögnum Atla af þeim málum, sem hann hefur tekið til umræðu á fyrsta þingvetri sínum, er sérkennilegt, að fréttastofa hljóðvarpsins leiti ekki staðfestingar þriðja aðila, áður en fréttir byggðar á ummælum Atla eru fluttar hvað eftir annað og meira að segja sem stórtíðindi í upphafi fréttatíma.