14.5.2008 21:40

Miðvikudagur, 14. 05. 08.

Í gær var sagt frá könnun, sem sýndi verulega fylgisminnkun borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna í Reykjavík. Afleiðingar OR/REI málsins hverfa ekki eins og dögg fyrir sólu, Borgarstjórn hefur ekki enn tekið á málefnum OR/REI af þeirri festu, sem þarf, sé vilji til að stýra inn á nýjar brautir.

Í dag bárust allt annars konar fréttir úr bæjarstjórn Akraness.

Sjálfstæðisflokkurinn myndar hreinan meirihluta í bæjarstjórn Akraness frá og með deginum í dag. Bæjarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra, Karen Jónsdóttir, hefur gengið í Sjálfstæðisflokkinn. Karen myndaði áður meirihluta með Sjálfstæðisflokknum.

Varamaður Karenar í bæjarstjórn er Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins. Hann tekur sinnaskiptum Karenar illa. Karen sættir sig ekki við andstöðu Magnúsar Þórs við þá ákvörðun bæjarstjórnarinnar, að palestínskar flóttakonur frá Írak fái hæli flóttamanna hér á landi með Akranes sem viðtökustað.

Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri á Akranesi, sem á sínum tíma var þingmaður Alþýðuflokksins, hefur einnig ákveðið að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Flokkurnn hefur nú hreinan meirihluta í bæjarstjórn Akraness.

Hinn 24. apríl mynduðu fulltrúar A- og D-lista í bæjarstjórn Bolungarvíkur nýjan meirihluta. Hefur D-listi þrjá fulltrúa í bæjarstjórn og A-listi einn. Meirihlutasamstarf A-lista og K-lista í bæjarstjórn Bolungarvíkur sprakk mánudaginn 21. apríl.

Elías Jónatansson, oddviti D-lista, tók við embætti bæjarstjóra af Grími Atlasyni. 

Mótbyrinn gegn Sjálfstæðisflokknum vegna ástandsins í borgarstjórn Reykjavíkur dregur greinilega ekki úr áhuga á sveitarstjórnarsamstarfi við flokkinn utan borgarmarkanna.