29.5.2008 23:01

Fimmtudagur, 29. 05. 08.

Ég sat á fundi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu klukkan 15.45, þegar allt lék á reiðiskjálfi vegna jarðskjálfta - Suðurlandsskjálfta. Hann reyndist 6,1 til 6,7 á Richter.

Fundinum var að ljúka og náðum við Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sem sat hann, strax sambandi við almannavarnir en Víðir Reynisson, forstöðumaður þeirra, og hans menn brugðust skjótt við og virkjuðu samhæfingarstöðina við Skógarhlíð. Um klukkutíma síðar var ég í beinni útsendingu í sjónvarpi frá alþingishúsinu og gat þá skýrt frá því, að mikið lið björgunarmanna, lögreglumanna og slökkviliðs hefði verið virkjað á til að fara á skjálftasvæðið.

Ég hafði einnig samband við Ólaf Helga Kjartansson, lögreglustjóra á Selfossi, Jón Sigurðsson, yfirfangavörð á Litla Hrauni, og Siguðr K. Oddsson, þjóðgarðsvörð á Þingvöllum, til að vita um gang mála. Ólafur Helgi og Jón höfðu orðið varir við skjálftann og sögðu hann verulega öflugan og hefði allt lauslegt og meira en það farið af stað, en ekki orðið alvarleg slys á mönnum. Á Þingvöllum féll grjót í Almannagjá og við Öxarárfoss en ekki til tjóns eða vandræða.

Fyrst var haldið, að skjálftinn hefði verið suðvestur af Selfossi en síðar kom fram, að hann varð í austurhlíð Ingólfsfjalls og færðist skjótt vestur á sprungu um Hveragerði. Var höggið vegna skjálftans mikið á Selfossi og í Hveragerði og innbú fólks varð illa úti.

Með reynsluna af 2000 skjálftanum lagði ég áherslu á, að almannvarnir einbeittu sér að því að ná sambandi við sem flesta íbúa á sem skemmstum tíma.

Klukkan 18.50 fór ég á fund með yfirstjórninni við Skógarhlíð og sá, hve vel og skipulega var staðið að öllum þáttum þar auk þess sem staðfest var, að Tetra fjarskiptakerfið hefði staðist þessa áraun með mikilli prýði og aldrei rofnað. Frá Skógarhlíðinni fór ég aftur í beint fréttasamtal við sjónvarp ríkisins.

Klukkan rúmlega 22.00 gaf Geir H. Haarde forsætisráðherra yfirlýsingu á alþingi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar vegna jarðskjálftans og viðbragða við honum.