Fimmtudagur, 08. 05. 08.
Dagurinn hófst á fundi með Ivan Bizjak, sem er einn af æðstu embættismönnum innan ráðherraráðs Evrópusambandisns á sviði Schengen-málefna. Hann er hér á landi í boði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og flutti fyrirlestur í hádeginu hjá lagadeild Háskóla Íslands. Við erum sammála um, að auka þurfi fræðilegan áhuga á þróun mála tengdum Schengen-samstarfinu. Réttarþróunin hefur verið mjög hröð á þessu sviði og nauðsynlegt að auka almenna vitneskju um hana.
Þá hitti ég Petras Baguska, dómsmálaráðherra Litháens, á fundi í Þjóðmenningarhúsinu og ræddum við sameiginleg málefni en þó sérstaklega framkvæmd á samkomulagi okkar frá því í febrúar um flutning litháiskra fanga héðan til afplánunar í Litháen. Ráðherrann fór með fylgdarliði sínu í heimsókn á Litla Hraun. Við hann birtist viðtal í Stöð 2 og einnig var rætt við ráðherra í sjónvarpinu.