23.5.2008 21:00

Föstudagur, 23. 05. 08.

Þess var minnst í dag, að eitt ár var liðið frá myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar undir forsæti Geirs H. Haarde. Forsætisráðherra sagði réttilega í tilefni dagsins, að stefmumál ríkisstjórnarinnar samkvæmt sáttmála hennar hefðu að verulegu leyti náð fram að ganga á árinu.

Ríkisstjórnin minntist afmælisins á fundi sínum í morgun kl. 09.30 og kl. 14.30 var börnum úr Tjarnarborg, leikskólanum andspænis Ráðherrabústaðnum að Tjarnargötu 32, boðið til afmælisveislu í bústaðnum. Þar fengu börnin, kennarar þeirra og ráðherrar súkkulaðitertu í tilefni dagsins og Frissa fríska með.

Í hádeginu fékk ég heimsókn frá feministum, sem vildu gera hreint í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í tilefni af úrskurði ráðuneytisins vegna skemmtistaðarins Goldfingers í Kópavogi. Deilt er um, hvort hann starfi innan laga og er þá vísað til ákvæða um nektarstaði. Ráðuneytið telur í úrskurði sínum, að sýslumanninum í Kópaogi beri að leita að nýju álits lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, áður en sýslumaður tekur afstöðu til starfsleyfis staðarins, þar sem fyrri umsögn lögreglustjórans sé háð annmörkum. Í ljós kom, að þær, sem vildu gera hreint í ráðuneytinu, höfðu ekki lesið úrskurðinn og skýrði ég fyrir þeim, að það væri misskilningur, að ráðuneytið hefði leyft nektardans - það væri ekki í verkahring ráðuneytisins. Á hinn bóginn vildi ráðuneytið, að örugglega yrði farið að lögum við ákvörðun um leyfi eða bann og um það snerist úrskurður þess.

Um hádegisbil barst mér skýrsla ríkisendurskoðunar um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Meginniðurstaða skýrslunnar er, að fara beri að tillögu minni og ákvörðun um að skipta embættinu í samræmi við verkaskiptingu innan stjórnarráðsins. Fróðlegt verður að fylgjast með því, hvernig forsætisnefnd þingsins stendur að því að kynna þessi sjónarmið ríkisendurskoðunar fyrir þingflokkum og hvetja þá til að framfylgja skýrslunni - eða til hvers bað forsætisnefnd um hana? Var það ekki til að greiða fyrir afgreiðslu málsins á alþingi?