4.5.2008 22:12

Sunnudagur, 04. 05. 08.

Einkennilegt er, að lagt sé þannig út af orðum manna um nauðsyn stjórnarskrárbreytinga í umræðum um samskipti Íslands við Evrópusambandið (ESB), að þeir hallist að ESB-aðild. Mér heyrist þannig lagt út af réttmætum ábendingum Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundi um helgina - en hann sagði óhjákvæmilegt að ræða breytingu á stjórnarskránni, tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu og önnur slík stjórnskipunarleg atriði í tengslum við umræður um tengsl Íslands og ESB. Hvernig í ósköpunum er unnt að túlka slíkar ábendingar á þann veg, að Guðni hafi skipt um skoðun og vilji Ísland inn í ESB?

Málsvarar ESB-aðildar kvarta gjarnan undan því, að ekki sé efnt til „Evrópuumræðna“ - þ. e. umræður um aðild að ESB samkvæmt þeirra orðabók. Með vísan til þessa segja málsvararnir að Guðni sé á leið í ESB, þegar hann tekur undir með þeim, sem telja nauðsynlegt að ræða og huga að heimavinnu og umboði íslenskra stjórnvalda, áður en farið er til viðræðna í Brussel.

Viðræður í Brussel leiða ekki til neinna sérlausna fyrir Ísland heldur tímabundinna undanþágna, á meðan Íslendingar laga sig að öllum skilyrðum ESB. Skoði menn samninga ESB við ný aðildarríki, sjá þeir, að þetta er meginreglan.