Mánudagur, 05. 05. 08.
Var klukkan 18.30 við skýli Landhelgisgæslu Íslands á Reykjavíkurflugvelli og tók þátt í athöfn við komu eftirlitsflugvélar sænsku landhelgisgæslunnar til landsins, en hún var í jómfrúferð sinni frá Toronto í Kanada. Þetta er samskonar vél og verið er að smíða fyrir landhelgisgæsluna og á að leysa Fokker-vél hennar af hólmi um mitt næsta ár, gangi allt samkvæmt áætlun.
Öll aðkoma að skýli gæslunnar á Reykjavíkurflugvelli hefur gjörbreyst vegna framkvæmdanna við Háskólann í Reykjavík, sem rýfur svæðið milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar en nú er valllendið á þessum slóðum allt horfið eins og varpfuglarnir.
Undrun vekur, að fjölmiðlar fylgist ekki betur en raun er með þessum miklu framkvæmdum í jaðri Vatnsmýrarinnar, en hann varð umræðuefni vegna ummæla Ólafs F. Magnússonar, borgarstjóra, um hugmyndir að skipulagi Vatnsmýrarinnar. Flugvöllurinn eru helstu stríðsminjarnar í Reykjavík, eins og dr. Þór Whitehead rifjaði upp í erindi í Þjóðmenningarhúsinu 30. apríl, þegar minnst var 100 ára fæðingardags föður míns. Gamli flugturninn er til dæmis einstakt mannvirki í flugsögu heimsins og ætti kannski erindi í raðskráningu á heimsminjaskrá UNESCO, ef fleiri slíkir væru til við N-Atlantshaf.
Sænska landgelgisgæsluvélin hafði einmitt viðdvöl í Goose Bay á Labrador og Narsarsuaq í Grænlandi á leið sinni til Reykjavíkur. Þessir flugvellir gegndu miklu hlutverki í síðari heimsstyrjöldinni og að henni lokinni.
Sýndar voru loftmyndir af Vatnsmýrinni í sjónvarpi í kvöld og þá sást vel, að Hringbrautin er ný austur-vestur braut, sem sker flugvöllinn, og Vatnsmýrina, frá miðborginni. Gaman væri að sjá loftmyndir af framkvæmdunum í nágrenni við flugskýli landhelgisgæslunnar.