21.5.2008 21:38

Miðvikudagur, 21. 05. 08.

Anna Guðný Júlíusdóttir, héraðsdómslögmaður, siglir í kjölfar hæstaréttarlögmannanna Atla Gíslasonar og Ragnars Aðalsteinssonar og sagði í Morgunblaðinu í morgun, „að dómsmálaráðherra hefði aukið enn fremur á þær takmarkanir sem nú þegar eru á möguleikum fólks til að leita sér gjafsóknar.“

Dæmalaust er að lesa þetta, þegar reglugerð, sem út kom 23. janúar 2008 mælir fyrir um, að þeir, sem eru með undir 1.600.000 kr. í árstekjur getið fengið gjafsókn með vísan til efnahags, en samkvæmt fyrri reglum var þessi fjárhæð 1.200.000 kr. Hvernig getur Anna Guðný rökstutt fullyrðingu sína? Ég spyr ekki Atla og Ragnar, þar sem þeir telja sig vera að slá pólitískar keilur með árásum á mig, ef að líkum lætur.

Þessi viðmiðunarmörk tekna hækka við hvert barn undir 18 ára aldri, einnig má hækka þær, ef framfærslukostnaður er óvenju hár, um er að ræða örorku eða óvenju há vaxtagjöld, svo að dæmi séu tekin. Ætla má, að lögmenn lesi reglur, áður en þeir leggja út af þeim. Mér virðist svo ekki vera.

Á fyrsta þingvetri sínum hefur Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna oft farið af stað með mál í ræðustól, án þess að hafa fast land undir fótum. Vekja hin veikburða rök þingmannsins fyrir máli sínu sérstaka athygli vegna þess, að þar er á ferð þaulreyndur málflutningsmaður.