15.5.2008 22:21

Fimmtudagur, 15. 05. 08.

Efnt var til umræðu utan dagskrár á alþingi í dag að frumkvæði Sivjar Friðleifsdóttur (F) um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og sést hér upphafsræða mín í þeim.

Í seinni ræðu lýsti ég undrun á þeim málatilbúnaði Lúðvíks Bergvinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, að leggja bæri niður embætti ríkislögreglustjóra.

Ég hef ekki enn áttað mig á því, hvað Lúðvík var að fara. Hann hefði frekar átt að nota tímann til að rökstyðja afstöðu sína gegn breytingum á embættinu á Suðurnesjum. Kannski treysti hann sér ekki til þess?

Klukkan 17.15 var ég á fjölsóttum fundi um Evrópumál í Valhöll, þar sem ég var framsögumaður ásamt Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingmanni, og Þórlindi Kjartanssyni, formanni SUS.

Ég hóf ræðu mína með því að vitna til þess, að á þingi hefði fyrr um daginn átt að ræða um lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum, en þingmenn Samfylkingarinnar hefðu rætt um embætti ríkislögreglustjóra. Þetta minnti á, að menn færu að ræða aðild að Evrópusambandinu, þegar umræðurnar snerust í raun um allt annað.

Þessi flótti frá því að ræða kjarna málsins einkennir allan málflutning þeirra, sem hæst tala um aðild að Evrópusambandinu í efnahagsmál líðandi stundar.

Frá ræðu minni var vel sagt á ruv.is. og á mbl.is

Stöð 2 reyndi hins vegar að búa til ágreining milli mín og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Á fundinum var ég spurður, hvort mig greindi á við Þorgerði Katrínu vegna ummæla hennar í Kópavogi í gær og á Stöð 2 í dag. Ég sagðist hvorugt hafa heyrt.

Ef menn vilja efna til þjóðaratkvæðagreiðslu eða gera breytingar á stjórnarskrá, verður það ekki gert, án þess að fyrst liggi fyrir um hvað á að kjósa eða hvers vegna á að breyta - menn gerðu hvorugt, án þess að stjórnvöld hefðu fyrst tekið ákvörðun og hún væri þess eðlis, að krefðist stjórnarskrárbreytingar eða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hver ætlar að gera slíka kröfu á þessu kjörtímabili?