2.5.2013 23:00

Fimmtudagur 02. 05. 13

Vladimir Ashkenazy stjórnaði sinfóníuhljómsveitinni í Eldborg í kvöld við mikla hrifningu áheyrenda. Fyrir hlé lék Stefán Ragnar Höskuldsson einleik á flautu. Stefán Ragnar er sóló-flautuleikari í hljómsveit Metropolitan óperunnar í  New York. Beinar útsendingar frá henni má sjá öðru hverju í Kringlubíói á laugardögum og eru þær endursýndar á miðvikudögum, í gær Júlíus Cesar, barokkóperu eftir Georg Friedrich Händel. Sú sýning var frábær eins og aðrar sem ég hef séð.

Sýrland fyrirtæki Sveins Kjartanssonar og fleiri hefur tekið upp í mynd og hljóð alla tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands síðan hún flutti í Hörpu. Fyrirtækið hefur staðið að þessu á eigin kostnað vegna áhuga eigenda þess og starfsmanna sem eru í hópi bestu upptökumanna landsins. Hið einkennilega er að hvorki sinfóníuhljómsveitin né ríkisútvarpið hefur sýnt þessu frumkvöðlastarfi áhuga.  Með þessari tækni er hið minnsta mál að sýna tónleika hljómsveitarinnar beint.

Berlínarfílharmónían býður netáskrift að tónleikum sínum, 149 evrur fyrir árið, Digital Concert Hall heitir þessi þjónusta á ensku og er einfalt að gerast áskrifandi að henni hvar sem er í heiminum. Rúmlega 30 tónleikar eru í boði á ári og er unnt að fylgjast með þeim beint. Nokkrum sólarhringum síðar er upptaka af tónleikunum á netinu og unnt er að skoða hana þegar hverjum og einum hentar og eins oft og hverjum hentar.

Það er einkennilegt að aldrei hafi verið gerð tilraun með að sýna beint frá tónleikum sinfóníuhljómsveitarinnar til dæmis á Ísafirði og Akureyri.

Ashkenazy laðaði hið besta fram hjá hljómsveitinni í kvöld í 6. sinfóníu Beethovens. Er mikils virði að til sé upptaka á mynd af þessum tónleikum. Hana ætti að sýna til að kynna hljómsveitina.