Fimmtudagur 23. 05. 13
Nýrri ríkisstjórn er fagnað og óskað til hamingju. Þau eru níu sem taka að sér að leiða starfið í ráðuneytunum. Ekkert þeirra hefur setið áður í ríkisstjórn. Öll hefðu gott af að kynna sér 100 ára sögu stjórnarráðsins sem til er í fimm bindum og kom út árið 2004. Þá sjá þau hve illa var staðið að sameiningu ráðuneyta í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar var unnið óþarft skemmdarverk af dæmalausri eyðileggingarþörf sem oft einkennir upplausnartíma.
Engin ríkisstjórn hefur fengið sambærilega falleinkunn hjá kjósendum og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Það sýnir lítil tengsl við grasrótina þegar Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sér ástæðu til að vega að þeim sem gagnrýna stjórnarhætti Jóhönnu-stjórnarinnar og telja þá fulltrúa gamla tímans. Engir sýndu stjórninni meiri óvild en kjósendur. Lifa þeir ekki í samtímanum?
Í dag höfum við Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, setið fundi um málefni hennar í Osló. Í kvöld efndi Cappelen-forlagið og sendiráð Íslands síðan til útgáfuhófs í tilefni af fyrsta bindi i þriggja binda þýðingu Knuts Ödegaards skálds á verkum sem tengjast Snorra Sturlusyni. Að þessu sinni eru það Hávamál og Völuspá úr hinu fræga Edduhandriti Konungsbók.
Knut og frú Vigdís Finnbogadóttir tóku þátt í kynningunni. Fjölmiðlar sýndu útgáfunni mikinn áhuga og var meðal annars sýnt viðtal við frú Vigdísi beint í helsta fréttatíma sjónvarpsins, Dagsrevyen. Gjörkunnugur maður sagði mér að hann hefði ekki áður kynnst slíkum áhuga á útgáfu bókar tengdu þessu efni. Hjá Cappelen var meðal annarra Kjeld Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs.
Í viðtölunum sem við Bergur höfum átt er áhuginn hinn sami og fram kemur í kynningunni á þýðingu Hávamála og Völuspár. Menningararfur okkar og Norðmanna er hinn sami og mikilvægt að leggja rækt við hann. Ánægjulegt er að sjá að í stefnuyfirlýsingu hinnar nýju ríkisstjórnar okkar Íslendinga er lögð rík áhersla á varðveislu þessa arfs og að hann sé lifandi þáttur í samtíðinni. Að svo sé sást mjög vel hér í Osló í dag.