15.5.2013 22:50

Miðvikudagur 15. 05. 13

Norðurskautsráðið efndi til ráðherrafundar í Kiruna í Svíþjóð í dag. Carl Bildt lét þá af formennsku í ráðinu eftir að hún hafði verið í tvö ár í höndum Svía. Kanadamenn tóku við formennskunni og verður hún í pólitískum höndum Leonu Aglukkaq, heilbrigðis- og norðurslóðaráðherra Kanada. Hún er af ættum inúíta, frumbyggja á norðurslóðum Kanada. Hún lýsti andstöðu Kanadamanna við að ESB fengi fasta áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu vegna andstöðu sambandsins við viðskipti með selafurðir.

Landstjórnin á Grænlandi ákvað þriðjudaginn 14. maí að senda ekki fulltrúa á fundinn í Kiruna. Kom þetta fundarmönnum á óvart en Aleqa Hammond, formaður landstjórnarinnar, sagði að í þessu fælust mótmæli við afstöðu Svía til Grænlendinga undanfarin tvö ár, þeir hefðu staðið gegn því að Grænlendingar sætu við hlið Dana á fundum ráðsins. Án Grænlands sætu Danir ekki í ráðinu og lýsti Villy Søvndal, utanríkisráðherra Dana, miklum vonbrigðum yfir framkomunni í garð Grænlendinga. Í ræðu á ráðsfundinum bað hann Kanadamenn að stjórna fundum ráðsins á annan veg.

Að Svíar setji Grænlendinga skör lægra en Dani á fundum Norðurskautsráðsins má ef til vill rekja til þess að þeir vilji halda aftur af Löppum eða Sömum innan ráðsins sem kynnu að gera kröfu til að sitja þar við hlið Norðmanna, Svía, Finna og Rússa. Staðreynd er að austan Atlantshafs sýna yfirvöld frumbyggjum norðurslóða minni virðingu en gert er vestan hafsins á Grænlandi, í Kanada og Alaska.

Carl Bildt notar jafnan norðurslóðarök innan ESB þegar hann talar máli aðildar Íslands. Þau rök eru ekki sett fram til að styrkja stöðu Íslands gagnvart ESB heldur í því skyni að ýta undir þá skoðun að ESB fái meiri ítök á norðurslóðum með aðild Íslands. Viðhorfið sem hann hefur sýnt Grænlendingum sem formaður Norðurskautsráðsins er ekki til marks um  mikla virðingu fyrir heimamönnum á N-Atlantshafseyjunum.