10.5.2013 19:20

Föstudagur 10. 05. 13

Með vætunni og aðeins meiri hlýindum eykst græni liturinn í túnunum. Umferðin austur fyrir fjall var meiri en oft áður í dag. Hvarvetna má stóra fjallajeppa sem eru til marks um að fjöldi ferðamanna fer um Suðurlandið. Fjöldi manns var við N1 á Hvolsvelli. Við mættum Strætó nokkrum sinnum á leiðinni, stórum og litlum vögnum.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra bregst hinn versti við dómi í héraðsdómi Austurlands á þágu atvinnufrelsis með langferðabílum á þjóðvegum landsins. Í Morgunblaðinu í dag segist hann ekki þurfa að breyta neinu, dómarar eigi hins vegar að sjá að sér ef þeir túlki lögin á annan hátt en hann. Á forsíðu blaðsins stendur:

„Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að niðurstaða Héraðsdóms Austurlands, þar sem lögbanni á rútuferðir var hafnað, gefi ekki tilefni til endurskoðunar á þeim samningum sem Vegagerðin hafi gert við sveitarfélög um fólksflutninga. Ögmundur segir að það séu fremur dómstólar sem þurfi að endurskoða afstöðu sína.“

Þetta er djörf afstaða hjá ráðherranum en í samræmi við trú hans á að opinberir aðilar geri hlutina betur en einkaaðilar. Honum er misboðið að dómarar átti sig ekki á að deili hið opinbera við einkaaðila eigi að dæma hinu opinbera í vil.