6.5.2013 22:45

Mánudagur 06. 05. 13

Það var vor í lofti í dag en gróður er mun seinni en undanfarin ár. Ég hef stundum hafið garðslátt í Fljótshlíðinni 10. maí en það verður ekki núna. Lóu-breiður voru hins vegar á túninu og hrossagaukurinn leikur sér í háloftunum, fyrstan sá ég að vísu tjaldinn eins og jafnan áður. Ég bíð eftir að jaðrakaninn setjist á girðingarstaurinn sinn.

Nú er þess minnst að eitt ár er liðið frá því að sósíalistinn François Hollande hlaut kosningu sem forseti Frakklands. Hann nýtur nú minnsta stuðnings sem forsetar í Frakklandi hafa hlotið í skoðanakönnunum. Þýska blaðið Süddeutsche Zeitung segir að sannleikurinn um fjárhagsvanda franska ríkisins birtist í sölu eðalvína úr kjallara forseta hallarinnar. Segir blaðið að þarna birtist in vino veritas. Sjá hér.

Fréttir af stöðu stjórnmála í Danmörku er ekki uppörvandi fyrir jafnaðarmenn. Nú hefur Ritt Bjerregaard, fyrrverandi forystumaður í Jafnaðarmannaflokknum, snúist gegn Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra og sagt hana í „stríði“ við eigin kjósendur. Bjerregaard var ráðherra, sat í framkvæmdastjórn ESB og gegndi síðast embætti yfirborgarstjóra í Kaupmannahöfn. Á sínum tíma var Bjerregaard meðal hinna fyrstu sem lýsti stuðningi við Thorning-Schmidt sem formann Jafnaðarmannaflokksins.

Nú nýtur danski jafnaðarmannaflokkurinn aðeins stuðnings 15,6% kjósenda en Venstre, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, mælist með 33,5%. Í kosningunum 2011 fengu Jafnaðarmenn 24,8% atkvæða og Venstre 26,7%, þá var munurinn á milli flokkanna 1,9 prósentustig, nú er hann 17,9 stig.

Þess má minnast að í aðdraganda þingkosninganna 27. apríl hélt Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, til Kaupmannahafnar til að leita ráða hjá Helle Thorning-Schmidt um hvernig ætti að snúa vörn í sókn í kosningabaráttunni.

Hver skyldi verða Ritt Bjerregaard í Samfylkingunni? Eða verður framvindan hin sama og undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur að enginn segi neitt? Flokkurinn fljóti sofandi áfram?