30.5.2013 22:45

Fimmtudagur 30. maí 2013

Það rigndi töluvert i Fljótshlíðinni í dag og nú mun gróðurinn taka kipp. Það var því gott að fá tíma í gærkvöldi til að slá skikann við bæinn í fyrsta sinn og næsta nágrenni bæjarins. Hlýni með rigningunni verður sprettan hröð og mikil.

Ég hlustaði á samtal um menningu í útvarpinu upp úr hádeginu þar sem Ævar Kjartansson þáttarstjórnandi kallaði Hörpu „hlunkinn“ og „ferlíkið“. Þetta eru sérkennileg orð um byggingu sem hefur fengið virtustu arkitektaverðlaun Evrópu.

Rætt var við Halldór Guðmundsson, forstjóra Hörpu, sem andmælti að vísu ekki þessari orðnotkun Ævars en sýndi hve fráleit hún er þegar rætt er um húsið sem 1.9 milljón manns hafa heimsótt síðan það var opnað 11. maí 2011.