13.5.2013 20:25

Mánudagur 13. 05. 13

Vígi í dag með þessari færslu nýja fartölvu. Lenovo L430 sem dugar til þeirra verka sem ég þarf hana. Gamla fartölvan mín er af sömu gerð en dýrara módel en þessi nýja. Það  er meiri hraði á öllu á þessari nýju. Þegar ég sagðist vera með Outlook-póstforrit kom í ljós að aðeins er unnt að nálgast það á netinu og ákvað ég þá að gerast áskrifandi að Office-pakkanum með netsambandi við Microsoft.

Ég hef verið PC notandi frá því að ég settist á alþingi árið 1991 en sem blaðamaður á Morgunblaðinu hafði ég starfað í Mac-umhverfi. Á þessum árum var WorldWideWeb ekki kominn til sögunnar, það var ekki fyrr en árið 1993 en fram til þess tíma voru samskipti á netinu erfiðari en nú. Ég kynntist tölvusamskiptum milli landa í blaðamennskunni og fékk meira að segja mótald (módem) heim til mín til að verið í sambandi við Morgunblaðið þaðan.

Strax á fyrstu árum www fékk ég áhuga á að setja upp vefsíðu þegar Arnþór Jónsson og félagar hans í Miðheimum vöktu athygli mína á þeirri leið til að miðla upplýsingum. Kom síðan bjorn.is til sögunnar árið 1995 sem afrakstur þess samstarfs.

Nú fylgir með í Office 365 sem ég tók í dag 20 GB geymslurými í SkyDrive – himnarými á vegum Microsoft. Ég hef þegar nýtt mér slíkt rými á vegum annars aðila og auðveldar það alla ritvinnslu þegar notaðar eru margar tölvur á mismunandi stöðum eins og ég geri.

Það verður spennandi að kynnast þessu nýja umhverfi en áskriftin sem ég tók í dag gerir mér kleift að setja hugbúnaðinn á fimm mismunandi tölvur.

Þar sem ég er utan Apple-heimsins tengi ég ekki saman tölvur og iPad eða iPhone. Apple-tækin veita ótrúlega mörg ný tækifæri til samskipta, athygli mín var til dæmis nýlega vakin á smáforritinu Viber sem gerir iPhone eigendum fært að tala saman eða senda sms-boð án tengsla við öll símafyrirtæki séu þeir staddir í þráðlausu umhverfi.

Eitt er að vera notandi og reyna að átta sig á allri þessari nýju tækni annað að stunda rekstur og atvinnustarfsemi á þeim sviðum þar sem hún hefur mest áhrif og hafa eitthvað í höndunum sem kannski er í raun úrelt á morgun.