21.5.2013 20:50

Þriðjudagur 21. 05. 13

Í Litteraturhuset í Bergen var í dag fyrir hádegi málþing um íslenskar bókmenntir og þýðingu þeirra á norsku. Margir fróðlegir fyrirlestrar voru fluttir. Síðdegis opnaði frú Vigdís Finnbogadóttir veforðabókina Íslex og kynning var á orðabókinni. Þetta er stórmerkilegt tæki fyrir alla málnotendur. Hér má sjá meira um þessa viðburði.

Undarlegt er að lesa um að Ólafur Ragnar Grímsson segist hafa valið Sigmund Davíð Gunnlaugsson til að mynda ríkisstjórn á Íslandi af því að honum hugnaðist stefnan sem hann boðaði fyrir kosningar. Ólafur Ragnar fer hér enn einu sinni út fyrir hæfileg mörk í afskiptum af stjórnmálum og hann undirstrikar afskiptasemi sína með því að kalla Sigmund Davíð til sín á Bessastaði á morgun.

Hvað vakir fyrir Ólafi Ragnari með þessu? Að gera lítið úr Jóhönnu Sigurðardóttur og flokki hennar eða VG? Hann gerir Sigmundi Davíð eða nýrri ríkisstjórn engan greiða með þessu.