17.5.2013 22:55

Föstudagur 17. 05. 13

Forsetar Frakklands og Bandaríkjanna eiga undir högg að sækja.

François Hollande hefur setið eitt ár í embætti af fimm á kjörtímabilinu. Álit Frakka á honum hefur minnkað jafnt og þétt og nú er hann lægra skrifaður en forverar hans hafa verið. Hann reyndi að snúast til varnar á blaðamannafundi í vikunni með því beina athygli að vanda Evrópusambandsins, tækju menn sig á þar batnaði hagur Frakka.

Barack Obama er að hefja annað og seinna kjörtímabil sitt. Hann á nú í vök að verjast vegna þriggja mála sem talin eru til marks um misnotkun á valdi. Í fyrsta lagi beittu bandarísk skattayfirvöld (IRS) teboðshreyfinguna svonefndu óhæfilegu harðræði, tveir æðstu stjórnendur skattheimtu í Bandaríkjunum hafa orðið að víkja úr embætti; í öðru lagi er dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna ábyrgt fyrir óhæfilegri símahlerun hjá starfsmönnum fréttastofunnar Associated Press; í þriðja lagi virðist sem á æðstu stöðum í Washington hafi menn reynt að leyna því sem gerðist í Benghazi í Líbíu þegar ráðist var á ræðisskrifstofu Bandaríkjanna þar og sendiherra þeirra felldur meðal annarra.

Nú er því víða haldið á loft að helst megi líkja Obama við Richard Nixon sem þótt hefur spilltastur forseta og hrökklaðist frá völdum fyrir um 40 árum vegna Watergate-málsins, yfirhylminga og pólitískrar spillingar.

Stjórnlög Frakklands og Bandaríkjanna gera ráð fyrir meira valdi forseta innan stjórnkerfisins en almennt tíðkast á Vesturlöndum. Verði forsetarnir áhrifa- eða máttlausir líður allt stjórnkerfið fyrir það og vandræði verða á öllum sviðum stjórnsýslu ríkisins.

Á dögunum sagði ég frá kaupum mínum á nýrri fartölvu hjá Nýherja og að vegna kaupanna hafi ég orðið að fjárfesta í Office 365 Homerunpremium forriti til að hafa þau forrit sem ég kýs í tölvunni. Forritið virkar í nýju tölvunni. Ég fékk fimm leyfi í áskriftinni og tekst mér ekki enn að nýta þau á öðrum tölvum. Ég sagði frá þessum vandræðum á fésbókinni og margir makkaeigendur töldu mig með ranga tölvu og búnað, hlakkaði í þeim vegna þess að þeir byggju betur. Ég ætlaði að leita ráða hjá Microsoft á Íslandi sem er umboðsaðili Office 365. Þar á bæ taldi viðmælandi í síma að vandamálið væri þeim óviðkomandi, ég ætti að ræða við seljanda tölvunnar. Það var skrýtið svar.