24.5.2013 22:30

Föstudagur 24. 05. 13

Við Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, lukum fundum okkar hér í Osló í dag. Fórum meðal annars í Gyldendal-forlagið og kynntum okkur útgáfustarfsemi þess á verkum Snorra. Þar er annars vegar um að ræða nýja þýðingu á Heimskringlu í þremur glæsilegum og myndskreyttum bindum og hins vegar sýnisbók úr Heimskringlu sem er gefin út fyrir skóla annars vegar og almenning hins vegar. Skólaútgáfan var gefin öllum nemendum í 9. bekk grunnskóla í Noregi í tilefni af útgáfu heildarverksins. Kjell Arild Pollestad þýddi verkið og sá um valið í sýnisbókina. Þá hefur Gyldendal sett skólaefni um Snorra á vefsíðu sína.

Eins og ég sagði í gær þá fagnaði forlagið Cappelen þá fyrsta bindi af þremur af nýrri þýðingu Knuts Ödegaards á Eddu.

Við höfum orðið þess áþreifanlega varir á ferð okkar til Bergen og Oslóar og viðræðum um málefni Snorrastofu hve mikill áhugi er á Snorra Sturlusyni og framlagi hans til norskrar sögu og menningar. Verður spennandi á sjá hvernig til tekst að vinna úr öllu því sem við höfum kynnst í þessari ferð.

Lokahnykkurinn í menningarferðinni var að fara í hið glæsilega óperuhús hér í Osló og sjá þar á litla sviðinu nýja norska óperu Khairos. Hún snýst um píanóstillara sem hefur hreina heyrn. Hann umturnast við að heyra í laufblásara í garði Khairos og drepur þann sem heldur á blásaranum. Honum er refsað með að verða settur um borð í olíuborpall. Ofurheyrn hans leiðir til þess að óþarft er að gera skjálftamælingar í leit að olíu. Hann auðveldar því íbúum í Khairos að stunda olíuvinnslu. Græðgin nær yfirhöndinni sem leiðir til ragnaraka, Í lokin er ungur drengur einn eftir á sviðinu, tákn framtíðarinnar, hinnar grænu jarðar sem rís úr djúpinu. Enn vorum við minntir á Snorra og Völuspá.

Khairos var samið að ósk Den Norske Opera & Ballett. Tónlist er eftir Knut Vaage, texti eftir Torgeir Rebelledo Pedersen og Kjersti Horn leikstýrir. Uppfærslan frumleg og beitt margvislegri tækni á opnu sviði. Þetta var fjórða sýning og ekki uppselt og því er líklegt að við verðum í fámennum hópi sem sér verkið að þessu sinni,