4.5.2013 21:55

Laugardagur 04. 05. 13

Í dag var tilkynnt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ætlaði formlega að hefja viðræður um stjórnarsamstarf við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins.

Forvitnilegt verður að fylgjast með næstu skrefum. Vilji kjósenda er að þessir tveir flokkar taki höndum saman um landstjórnina. Samfylkingunni var hafnað á eftirminnilegan hátt og sömu sögu má segja um VG. Vinstri grænir njóta hins vegar meiri velvildar í almennum umræðum en Samfylkingin vegna þess hve Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, býður af sér góðan þokka.

Samfylkingin er svo brothætt á þessari stundu að reiðin fær ekki útrás á þann hátt sem verðugt er. Árni Páll Árnason, formaður flokksins, ætti að sjálfsögðu að segja af sér. Engir hafa talað meira um pólitískar fyrirmyndir í útlöndum hin síðari ár en samfylkingarfólk, fengi flokkur í lýðræðislandi sömu útreið  og Samfylkingin fékk 27. apríl hefði formaður þess flokks boðað afsögn.

Þrýstingur á afsögn Árna Páls mun magnast eftir að Sigmundur Davíð og Bjarni hefja stjórnarmyndarviðræðurnar. Lagst verður á sveif með Árna Páli af þeim sem óttast að Samfylkingin klofni vegna formannsátaka. Þeir hafa rétt fyrir sér. Árni Páll kann að vera síðasti formaður Samfylkingarinnar.

Össur Skarphéðinsson leitast nú við að dreifa athygli frá hamförunum innan Samfylkingarinnar með furðuskrifum um stjórnarmyndunarviðræðurnar sem hann ætlaði að stjórna fyrir hönd flokks síns ef marka má áróður hans þegar hann sóttist eftir sæti á framboðslista Samfylkingarinnar. Enginn vill ræða um stjórnarsamstarf hvorki við Össur né Samfylkinguna. Það er hin kalda niðurstaða kosninganna.