27.5.2013 22:45

Mánudagur 27. 05. 13

Í ræðu sem ég flutti í Rótarýklúbbi Reykjavíkur um öryggis- og varnarmál á dögunum sagði ég að yfirstjórn varnarmála væri stjórnsýslulegur bastarður þar sem ekki hefði verið leyst úr ágreiningi milli utanríkisráðuneytis og innanríkisráðuneytis . Ríkisendurskoðun staðfestir þetta í skýrslu sem sagt var frá í dag. Er furðulegt að lesa lýsingar á tregðu til frágangs á þessu máli þrátt fyrir að samkomulag liggi fyrir milli ráðuneytanna um hvernig fara skuli með það. Framkvæmdin á að sjálfsögðu að vera undir stjórn innanríkisráðuneytisins enda eru landhelgisgæsla og lögregla stofnanir á þess vegum. Utanríkismálaráðuneytið heldur hermálaþættinum enda er enginn her hér á landi heldur snýst þessi þáttur um samskipti við önnur ríki.

Á Keflavíkurflugvelli er sérstakt öryggissvæði, að það skuli enn falla undir utanríkisráðuneytið sýnir í hnotskurn um hvað málið snýst, það er að utanríkisráðuneytið heldur dauðahaldi í leifar valds síns frá þeim tíma þegar bandaríska varnarliðið dvaldist hér og utanríkisráðuneytið kom fram fyrir Íslands hönd gagnvart því og var einskonar „einræðisherra“ á Keflavíkurflugvelli. Þessi tími er liðinn og í raun ber innanríkisráðuneytið nú höfuð og herðar yfir öll ráðuneyti þegar litið er til flugvallarins og starfseminnar þar löggæslu, flugstarfsemi og annars.

Þetta mál lægi mun skýrar fyrir notuðu stjórnvöld orðið hermál frekar en „varnarmál“ og hernaðartengd verkefni  í stað „varnartengdra verkefna“. Væri það gert sæju menn betur verkaskiptinguna milli utanríkisráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins.

Þess er að vænta að nú verði tekið af skarið um þetta mál úr því að skýrsla ríkisendurskoðunar hefur verið birt. Þar er því beint til forsætisráðuneytisins að taka ákvörðun. Verði hún reist á efnislegu mati og eðlilegri verkaskiptingu milli ráðuneyta verða hermálin hjá utanríkisráðuneytinu en framkvæmd hinna borgaralegu verkefna hjá innanríkisráðuneytinu og stofnunum þess.