Þriðjudagur 07. 05. 13
Nú hafa ESB-umræður í Danmörku tekið óvænta stefnu þegar í ljós kemur að ríkisstjórnin hefur ekki stuðning 5/6 hluta þingmanna til að samþykkja samning sem hún hefur gert um aðild að Einkaleyfadómstóli ESB sem stofna skal í París til að framfylgja reglum sem hafa verið í smíðum í 30 ár um eitt einkaleyfi innan ESB.
Hér skal ekki slegið föstu að ekki takist að skapa meirihluta í danska þinginu þegar á reynir í þessu máli. Ef til vill er þetta að öðrum þræði pólitískur leikur til að koma hinni óvinsælu stjórn Helle Thorning-Schmidt í enn meiri vanda. Óvinsældir danskra jafnaðarmanna hafa ekki verið meiri frá því að flokkurinn var stofnaður.
Með hliðsjón af að íslensk stjórnskipun og stjórnarskrá taka mikið mið af dönskum stjórnlögum er forvitnilegt að skoða megindrætti málsins. Danir unnu í ESB-forsetatíð sinni 2012 að gerð samkomulagsins um einkaleyfadómstólinn á lokastigum þess. Eftir að það var gert komst danska dómsmálaráðuneytið að niðurstöðu um að samningurinn fæli í sér framsal á fullveldi og þess vegna bæri að leita samþykkis 5/6 þingmanna. Takist ríkisstjórninni ekki að fá þann meirihluta og vilji hún aðild Dana að samningnum verður hún að bera málið undir þjóðina í atkvæðagreiðslu.
Danir hafa sett ákvæði í stjórnarskrá sína sem ekki er að finna hér um aðild að yfirþjóðlegum alþjóðasamtökum og hvernig skuli halda á málum við framsal á fullveldinu. Hér hafa stjórnvöld undanfarin fjögur ár klúðrað tilraunum til að breyta stjórnarskránni og til að semja um aðild að Evrópusambandinu. Þessi mál hanga saman en enginn meirihluti er hvorki meðal þjóðarinnar né þingmanna til að þau nái fram að ganga.