Fimmtudagur 16. 05. 13
VÍB, eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, og Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál efndu til fundar í morgun í Silfurbergi í Hörpu um tækifæri á norðurslóðum Martha Eiríksdóttir stýrði fundinum og erindi fluttu Svend Hardenberg, athafnamaður og sveitastjóri á Grænlandi, Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir og Haukur Óskarsson, framkvæmdastjóri hjá Mannviti. Fundurinn var fjölsóttur sem staðfestir enn einu sinni áhuga á hinum spennandi hlutum sem eru að gerast á norðurslóðum.
Þessi fundur hafði sérstöðu að því leyti að þar talaði Grænlendingur sem lýsti málum frá sjónarhóli heimamanns með víðtæka reynslu og þekkingu. Af máli Hardenbergs má ráða að tækifærin á Grænlandi séu mikil en fjárfrek. Hann segir að nýting þeirra sé leið þjóðarinnar til sjálfstæðis og nefnir: Jarðefni, álbræðslu og mannvirki tengd henni, vatnsaflsvirkjanir, fiskveiðar, útflutning á vatni í tanskipum og gagnaver auk annarra verkefna. Hann vill að Grænlendingar geti stofnað til samvinnu við aðrar þjóðir án milligöngu Dana og sagði að þeir hefðu minnt á sjálfstæða stöðu sína með því að senda ekki fulltrúa á ráðherrafund Norðurskautsráðsins í Kiruna, þar sem þeim hafði ekki verið ætlað sæti við fundarborðið. Slíka móðgun létu þeir ekki bjóða sér.
Heiðar Már sagði að á Íslandi yrði ekki umskipunarhöfn vegna norðurslóðasiglinga nema risastórt alþjóðlegt skipafélag tæki ákvörðun um að hafa sér bækistöð til langs tíma. Hann benti á að Íslendingar gætu verulega látið að sér kveða vegna legu lands síns og þekkingar, Hér væru t.d. sjómenn og flugmenn sem þekktu aðstæður betur en aðrir Icelandair væri eina flugfélag heims sem flygi til allra aðildarlanda Norðurskautsráðsins nú þegar opnuð hefði verið flugleið frá St. Pétursborg um Ísland til Anchorage.
Haukur Óskarsson sagði að 31 milljaður tunna af olíu væri við Norðaustur-Grænland að mati bandarísku jarðfræðistofnunarinnar en nú lægi fyrir norskt mat um að 6 milljarða tunna væri að finna á Drekasvæði Íslendinga og 4 milljarða tunna á norska svæðinu við Jan Mayen. Þetta sýndi hve gífurleg tækifæri væru við Grænland. Taldi hann Akureyri kjörinn stað til þjónustu við þetta svæði en Heiðar Már sagði að 250 til 300 km væru þangað frá austurströnd Grænlands en 1.000 km til Tromsö næstu hafnar fyrir utan Ísland.
Hér má sjá upptöku frá þessum fróðlega fundi.
Undir kvöld ræddi ég um öryggis- og varnarmál á fundi Rotary-klúbbs Keflavíkur og nálgaðist málefni norðurslóða frá þeim sjónarhóli. Gæsla öryggis skiptir höfuðmáli við allt sem menn taka sér fyrir hendur við hinar erfiðu og oft hlættulegu aðstæður á norðurslóðum.