Sunnudagur 05. 05. 13
Fréttastofa ríkisútvarpsins komst að þeirri skynsamlegu niðurstöðu í dag þegar fjallað var um viðræður framsóknarmanna og sjálfstæðismanna um myndun ríkisstjórnar að ekki næðist saman um nýja stjórn nema með málamiðlun, það þýddi að annar eða báðir yrðu að slá af kröfum sínum.
Tónninn í fréttinni var á þann veg að þetta væri sérstakt fréttaefni, að samningar væru reistir á málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða. Fréttastofan hefur rétt fyrir sér að þetta er frétt ef miðað er við viðræðurnar sem farið hafa fram í tæp fjögur ár við Evrópusambandið um aðild Íslands án þess að í raun sé komið að umræðuefninu. Í ESB-viðræðunum er ekki leitað að málamiðlun heldur að hinu hvort Íslendingar þurfi aðlögunartíma að einhverjum reglum ESB.
Af hálfu Evrópusambandsins er jafnan talað um að „niðurstaða“ þess verði lögð fyrir Íslendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum viðræðunum. ESB-menn tala aldrei um málamiðlun sem reist sé á breytingum á reglum eða sáttmálum ESB enda kemur slík málamiðlun ekki til greina.
Ný ríkisstjórn sem rædd er núna mun hætta viðræðunum við ESB, báðir flokkarnir telja Íslandi betur borgið utan við ESB en innan dyra í því. Viðræðunum verður ekki fram haldið án þess að þjóðin samþykki það í atkvæðagreiðslu. Hvaða flokkur mun flytja tillögu um slíka atkvæðagreiðslu? Ekki Samfylkingin, hún hefur alltaf verið á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort ræða eigi við ESB eða ekki.