14.5.2013 21:58

Þriðjudagur 14. 05. 13

Jón Þór Ólafsson, nýkjörinn þingmaður Pírata, var gestur minn á ÍNN hinn 8. maí og má sjá samtal okkar hér. Mér lá hugur á að vita hver væri stefna Pírata, hins nýja flokks á alþingi.

Eins og við var að búast reyndist staða ríkissjóðs verri eftir kosningar en stjórnarliðar sögðu hana vera fyrir kosningar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Steingrímur J. Sigfússon, fráfarandi ráðherra, deila nú um þetta. Spilin verða vonandi lögð á borðið svo að almenningur geti sjálfur lagt mat á stöðuna.

Steingrímur J. hefur ritað sjálfshóls grein í The Financial Times og notar jafnframt tækifærið til að gera lítið kjósendum sem spörkuðu honum út úr stjórnarráðinu. Um þetta má meðal annars lesa hér.

Kristinn E. Hrafnsson myndlistarmaður heldur áfram að skrifa um ráðningu nýs rektors Listaháskóla Íslands í Morgunblaðið. Við blasir að stjórn skólans hefur að minnsta kosti farið á svig við lög ef ekki brotið þau með vali sínu á eftirmanni Hjálmars H. Ragnarssonar. Skrýtin er röksemdin að nýi rektorinn hafi ekki kennt við skólann af því að hann hafi ekki haft tíma til þess þegar tilmæli bárust og að þetta skuli notað sem rök fyrir ráðningunni.

Hið einkennilega við þessar umræður er að ekki skuli birt nöfn umsækjenda um rektorsstöðuna. Þá er furðulegt að ekki skuli birt nöfn þeirra sem sóttu um stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Rétt er að minna á að fulltrúar VG sitja í formennsku stjórna beggja þessara stofnana en leyndarhyggja sýnist vera kær trúnaðarmönnum flokksins.

Á sínum tíma lá ekki í augum uppi hvaða leið mundi duga til að skapa sátt þegar Listaháskóli Íslands kom til sögunnar. Sé ekki gætt vandaðra stjórnsýsluhátta við allar ákvarðanir vegna yfirstjórnar skólans er vegið að stoðum hans.