3.5.2013 20:35

Föstudagur 03. 05. 13

Pukur og leyndarhyggja tekur á sig ýmsar myndir í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Nú berast fréttir um að fyrir nokkrum vikum hafi Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra breytt reglugerð í því skyni að þrengja rétt EES-borgara til landakaupa hér. Hann var ekki að bregðast við aðsteðjandi vanda heldur þjóna eigin duttlungum. Hann taldi ekki einu sinni líklegt að þetta yki fylgi hans í SV-kjördæmi og kaus því að málið færi hljótt fram yfir kosningar.

Spurning er hvað fleira kemur í ljós þegar líður frá kosningum.

Nýlega birtist grein í Morgunblaðinu þar sem færð eru rök að lögbroti við ráðningu nýs rektors Listaháskóla Íslands. Fyrrverandi skólanefndarmaður ritar greinina og bendir á að fráleitt sé að ráða bókmenntafræðing í stöðu rektors þegar reglur geri ráð fyrir að rektor sé hæfur til að kenna einhverja grein sem er í boði í skólanum. Bókmenntafræði er ekki kennd þar heldur í Háskóla Íslands. Þetta er eitt en hitt er ekki síður einkennilegt að ekki skuli birt nöfn þeirra sem sóttu um rektorsstarfið. Það er ekki í þágu gegnsæis og lýðræðislegra stjórnarhátta að standa að ráðningu í starf af þessu tagi með leynd. Hér með er skorað á Kolbrúnu Halldórsdóttur, stjórnarformann listaháskólans, forseta Bandalags listamanna og fyrrverandi þingmann VG, að birta nöfn þeirra sem sóttu um rektorsstarfið í listaháskólanum.

Um þessar mundir mun stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands vinna að ráðningu nýs framkvæmdastjóra fyrir sveitina. Guðni Tómasson, ráðgjafi Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, er stjórnarformaður sinfóníuhljómsveitarinnar. Hvers vegna beitir hann sér ekki fyrir að birt séu nöfn umsækjanda um starf framkvæmdastjóra sveitarinnar?

Ef þeir trúnaðarmenn VG sem hér hafa verið nefndir til sögunnar eru í vafa um hvort eigi að birta nöfnin eða ekki verður Katrín Jakobsdóttir að taka af skarið og gefa fyrirmæli um nafnbirtingarnar sem handhafi æðsta pólitíska valds á sviði mennta- og menningarmála.