Sunnudagur 12. 05. 13
Fréttastofa ríkisútvarpsins ræddi í dag við Gunnar Helga Kristinsson prófessor í tilefni af hugmyndum í stjórnarmyndunarviðræðunum um að fjölga ráðherrum og breyta skipan ráðherra. Þess var látið ógetið í fréttinni að Gunnar Helgi sat í nefnd sem skilaði Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra skýrslu um breytingar á stjórnarráðinu, fækkun og stækkun ráðherra. Skýrslan var liður í umdeildum breytingum á stjórnarráðin sem alþingi samþykkti og endanlega var hrundið í framkvæmd 1. september 2012.
Reynslan af þessum breytingum er lítil. Það er gjarnan vitnað til skýrslu ríkisendurskoðunar til staðfestingar á að vel hafi til tekist. Að unnt sé að leggja mat á það á svo skömmum tíma er ekki sannfærandi. Nokkur spuni hefur verið vegna þessara stjórnarráðsbreytinga í anda Samfylkingarinnar. Því fer víðs fjarri að öll kurl séu komin til grafar í þessu máli. Sumt hefur vafalaust heppnast annað alls ekki.
Miðað við stjórnsýsluhlutverk stjórnarráðsins og skyldur embættismanna til að afgreiða málefni borgararanna og gæta hagsmuna þeirra á vandaðan, skjótan og markvissan hátt er undarlegt að sjá hve mikil áhersla er lögð á stefnumörkun og ályktanasmíði á vegum ráðuneyta, til dæmis innanríkisráðuneytisins. Sé vefsíða ráðuneytisins skoðuð sést að í skrifstofu stefnumótunar og þróunar eru 18 starfsmenn en aðeins 6 í skrifstofu almannaöryggis.
Fréttir frá þessu ráðuneyti bera með sér að þar bíði mikill fjöldi úrskurða afgreiðslu, til dæmis hælisleitenda. Stærsta skrifstofa ráðuneytisins er helguð stefnumótun og þróun. Þessi áhersla bendir til að í ráðuneytinu vilji menn fara inn á svið alþingis og sölsa undir framkvæmavaldið verkefni á sviði stefnumörkunar og þróunar sem á heima í höndum stjórnmálamanna. Þetta er ekki æskileg þróun og ætti að snúa af þessari braut með myndun nýrrar ríkisstjórnar.