14.9.1997 0:00

Sunnudagur 14.9.1997

Hálfur mánuður er síðan ég færði hér síðast inn dagbókarbrot og stafar það af því, að um síðustu helgi eða dagana 20. til 23. september var ég í Hamborg og Lübeck á fundi menningarmálaráðherra Eystrasaltslandanna. Var þetta þriðji ráðherrafundurinn af þessu tagi en hinn fyrsti, sem ég sæki. Eins og kunnugt er var Ísland ekki með í Eystrasaltssamstarfinu, þegar það hófst en síðan var okkur boðin aðild eftir gagnrýni af okkar hálfu. Tel ég gagnlegt fyrir okkur að eiga aðild að þessari svæðasamvinnu ríkjanna en auk Norðurlandanna fimm eiga Eistland, Lettland, Litháen, Rússland og Pólland aðild auk sambandslandanna Schleswig-Holstein og Mecklenburg-Vorpommern, að þessu sinni tóku fulltrúar Freie und Hansestadt Hamburg einnig þátt í fundunum. Helmut Schäfer, aðstoðarutanríkisráðherra sambandsstjórnarinnar í Bonn, stjórnaði hins vegar fundinum, en í Þýskalandi eru menningarmál á verksviði einstakra sambandslanda en sambandsríkið kemur fram gagnvart öðrum ríkjum. Fyrsta daginn vorum við í Hamborg og fram eftir degi sunnudaginn 21. september, þegar farið var til Lübeck í Schleswig-Holstein, þar sem fundirnir voru haldnir. Borgin er rétt við landamærin, sem áður skildu á milli Austur- og Vestur-Þýskalands. Fórum við í ferð til borgarinnar Wismar í Mecklenburg-Vorpommern, sem er sambandslandið við Eystrasaltsströndina í fyrrverandi Austur-Þýskalandi og nær að landamærum Póllands. Enn er mikill munur á Austur- og Vestur-Þýskalandi, þótt stórátak hafi verið gert til að jafna muninn. Wismar á sér gamla sögu sem ein af Hansaborgunum og þangað munu menn vafalaust sækja til að sjá slíka borg, sem ekki hefur verið spillt með nýjum byggingum. Í ræðum sem fulltrúar borgarinnar og sambandslandsins fluttu yfir okkur kom fram mikill biturleiki, þegar fjallað var um einræðistíma kommúnista í landinu og sagt, að þeir hefðu valdið því meira tjóni en átökin í síðari heimsstyrjöldinni. Fórum um kvöldið á frumsýningu á leikritinu Bein útsending í Loftkastalanum.