Miðvikudagur 17.9.1997
Í hádeginu var afmælisfundur Verslunarráðs Íslands á Hótel Sögu, þar sem forsætisráðherra flutti ítarlega ræðu um stöðu Íslands í alþjóðlegu tilliti. Um kvöldið var að nýju fundur á sama stað, þar sem Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðismanna í Reykjavík, tók ákvörðun um opið prófkjör vegna borgarstjórnarkosninganna. Var þessi ákvörðun tekin á lýðræðislegan hátt og er sú afgreiðsla í hróplegu ósamræmi við vinnubrögðin hjá R-listanum, þar sem menn sitja í bakherbergjum og deila með sér sætum en komast síðan að þeirri niðurstöðu að fela Ingibjörgu Sólrúnu að ráða aðferðinni, sem á að beita við skipan framboðslistans. Skilst mér að hún hafi sagt einhvers staðar, að kannski myndi hún handvelja á listann, af því að Davíð Oddsson hafi gert það á sínum tíma og sigrað! Hún sleppir því hins vegar, að umboðið fékk kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins eftir almennan fund, umræður á honum og atkvæðagreiðslu. Hin ólýðræðislegu vinnubrögð, sem jafnan hafa einkennt hinn skipulagslausa Kvennalista, virðast nú eiga að ráða við ákvarðanir á vegum R-listans í vandræðagangi hans og framboðsraunum. Bendi ég enn á það, hve lítið er fjallað um þessar raunir í fjölmiðlum, enda kemur það R-listanum líklega best að það sé ekki gert.