29.8.2008 20:49

Föstudagur, 29. 08. 08.

Flugum klukkan 08.15 frá Berlín til Vilníus og lentum þar um kl. 11.00 að staðartíma en við færðum klukkuna fram um eina stund á leiðinni.

Síðdegis sat ég fund með Petrus Baguska, dómsmálaráðherra, í ráðuneyti hans og ræddum við samstarfsáætlun ráðuneyta okkar og flutning litháiskra fanga til Litháen en nú er öllum formsatriðum lokið vegna þriggja fanga og eru þeir brátt á förum frá Íslandi til að taka út refsingu í heimalandi sínu.

Eftir hátíðlega undirritun samstarfssamkomulagsins héldum við í heimsókn í fangelsi nr. 2 í Vilníus, þar sem eru 473 fangar, enginn þeirra er að taka út fyrstu refsingu sína og allir eru fullorðnir karlmenn.

John McCain hefur valið Söru Palin sem varaforsetaefni sitt. Hún flutti ræðu við setningu þingmannaráðstefnunnar um norðurheimskautmál í Fairbanks í Alaska á dögunum, en þar er hún ríkisstjóri. Hún kom mér fyrir sjónir sem glæsilegur fulltrúi ríkis síns og góður ræðumaður. Hvað sem öðru líður er henni vel kunnugt um breytingar á norðurslóðum og nauðsyn þess að bregðast við þeim með nýjum aðferðum af hálfu Bandaríkjamanna. Þá er hún einnig kynnt til sögunnar sem einörð baráttukona fyrir hægrisinnuðum sjónarmiðum.