28.8.2008 20:12

Fimmtudagur, 28. 08. 08.

Sigurbjörn Einarsson biskup andaðist í dag og er öllum harmdauði. Nú er skarð fyrir skildi, þegar svo öflugur málsvari kristni og mannúðar er fallinn frá. Blessuð sé minnning hans.

Ég varð við óskum þeirra fjölmiðlamanna, sem báðu mig að minnast hins aldna kirkjuhöfðingja.

Í morgun sátum við fund í Berlín með Bundeskriminalamt,  rannsóknarlögreglu þýska sambandsríkisins. Ræddum við hlutverk og viðfangsefni embættisins. Fyrir sameiningu Þýskalands voru höfuðstöðvarnar í Wiesbaden en nú er starfsemi þeirra að flytjast til Berlínar. Þetta lögreglustarf eins og annað mótast mjög af sjálfstæði 16 sambandslanda, sem hvert um sig hefur eigin lögreglu, þar á meðal rannsóknarlögreglu og leyniþjónustu.

Skipulag lögreglunnar byggist á því meginsjónarmiði, að aldrei verði neitt til í Þýskalandi, sem líkist Gestapo í nokkru tilliti. Valddreifing og skýrar valdheimildir ráða öllu skipulagi lögreglunnar auk þess sem skipan í einstökum sambandslöndum tekur mið af því, hvort þau voru á hernámssvæði Bandaríkjamanna, Breta, Frakka eða Rússa, þegar lagt var á ráðin um ný lögreglulið eftir stríð. 

Skammt frá fundarstað okkar er sovéska stríðsmerkið í Treptow og litum við inn í garðinn og skoðuðum þetta risa-minnismerki um sigur herja Stalíns yfir þýska hernum. Ég segi Stalíns, því að minnismerkið var reist 1948 til 1949 ekki síður til heiðurs Stalín en rússnesku hermönnunum, sem létu lífið fyrir ættjörðina.

Móðir jörð, Rússland, krýpur fyrir risastyttu í fjarlægð af hermanni með barn í fanginu með brotinn hakakrossinn við fætur sér. Á leiðinni frá móður að hermanni eru fimm risa-sigurkrossar, einn fyir hvert ár stríðsins við nasista, og á stöplum eru áletranir með hvatningarorðum Stalíns á þýsku og rússnesku.

Síðdegis gafst tóm til að skoða Kongresshalle eða Kulturhaus, sem Bandaríkjamenn reistu í Tiergarten og opnað var 1957. Ég veit ekki um neitt annað hús í sögunni, sem var svo öflugt vopn í kalda stríðinu, að Sovétménn sendu orrustuþotur í 100 m. hæð yfir það í því skyni að trufla fundi, sem þar voru haldnir.

Ferð um Berlín lauk í hinu einstæða Pergamon-safni, þar sem nú er Babylon-sýning, sem hefur að verleikum vakið heimsathygli.