Föstudagur, 01. 08. 08.
Jón Kaldal ritar leiðara í Fréttablaðið í dag undir fyrirsögninni: Einkavædd lögregluverkefni og byggir á þeim sérkennilega misskilningi, að öryggisþjónustur séu að taka að sér verkefni, sem eðlilegt sé, að lögregla sinni.
Telur Jón, að ég þurfi, vegna þess ég fagna starfsemi öryggisþjónustufyrirtækja, að svara því, hvort fallið hafi verið frá markmiðum löggæsluáætlunar 2007 til 2011 um sýnilega löggæslu, hverfa- og grenndarlöggæslu. Svar mitt er einfalt: Ekki hefur verið fallið frá þessum markmiðum. Á höfuðborgarsvæðinu hefur þessi stefna áætlunarinnar gengið eftir.
Ég visa til orðaskipta okkar Sigmars Guðmundssonar um sýnilega löggæslu í Kastljósi á dögunum. Jón Kaldal getur ekki fært nein rök fyrir því, að Seltjarnarnesbær hafi neyðst til þess að auka þjónustu við íbúa sína með samningi við Securitas. Bæjarstjórnin taldi einfaldlega, að þessi þjónusta mundi mælast vel fyrir og skila árangri og hefur þetta mat hennar reynst á rökum reist. Framúrskarandi þjónusta sveitarfélags leiðir sem betur fer til þess, að fleiri vilja sigla í kjölfarið.
Í húsum mínum hef ég tengingar við vaktstöð einkaaðila og sjálft stjórnarráðið hefur boðið út öryggisgæslu sína. Þettar er ekki gert af því að lögreglu er vantreyst heldur með virðingu fyrir eðlilegri verkaskiptingu. Þetta á ekkert skylt við framkvæmd löggæsluáætlunar. Hvergi í veröldinni er tallð, að löggæslu eigi að skipuleggja á sama veg og öryggisfyrirtæki skipuleggja þjónustu sína - eða veit Jón Kaldal um það? Kannski í lögregluríkjunum Kína og Kúbu?
Er Jón Kaldal í raun þeirrar skoðuðnar, að öryggi borgaranna sé betur borgið með lögreglumönnum, sem sitja við símann inni á lögreglustöð, en þeim, sem eru í viðbragðsstöðu í bifreið á sveimi um sama umdæmi? Hvort heldur Jón, að fólki, sem lendir í hremmingum og vill leita aðstoðar lögreglu, sé ofar í huga heimilisfang lögreglustöðvarinnar í Kópavogi eða 112?
Góðvinur lögreglunnar sagði á dögunum, að best væri að hafa lögreglu í lögreglustöðvum á nóttunni, því að þá væru ræningjar á ferð. Hann var skömmu síðar handtekinn við innbrot um hábjartan dag!
Í Kardemommubænum sungu menn (í þýðingu Kristjáns frá Djúpalæk):
í bænum sofa allir rótt.
Þó tökum við aldregi of eða van,
hvorki Kasper né Jesper né Jónatan.