30.8.2008 16:44

Laugardagur, 30. 08. 08.

Flugum frá Vilníus klukkan 12.55 og lentum 13.30 á dönskum tíma í Kaupmannahöfn - færðum klukkuna til baka um eina stund á leiðinni.

Í morgun gafst tækifæri til að skoða gamla bæinn í Vilnius, sem er á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1994, tæpir 250 ferkílómtetrar og viðö endurreisn hans er gætt ákveðinna regla, sem útiloka alls ekki þróun gamla bæjarins og nýtingu mannvirkja þar.

Háskólinn er stór og mikill og er til marks um ríkidæmi Litháens, þegar ríkið var stærst og voldugast. Litháar voru síðastir Evrópubúa til að taka kristni, engui að síður er gamli bærinn þéttskipaður kirkjum, ef svo má segja. Þær hafa allar verið endurgerðar eftir Sovéttímann, en þá var þeim breytt í söfn eða bílaverksstæði.

Okkur var einnig boðið að skoða forsetahöllina, mikið og glæsilegt hús, þar sem forsetinn hefur skrifstou sína og ráðgjafar hans. Þar eru heiðursmerki forseta til sýnis, þar á meðal stórriddarakross íslensku fálkaorðunnar með stjörnu. Hann var veittur Valdas Adamkus árið 1998, þegar hann var fyrst kjörinn forseti. Leiðsögukona okkar sagði, að fálkaorðan sé fyrsta heiðursmerki hans sem forseta, enda hefði Ísland orðið fyrst ríkja til að viðurkenna Litháen 1991.

Hvað eftir annað var okkur Íslendingunum sérstaklega fagnað vegna hinnar fyrstu viðurkenningar, þar á meðal í fangelsinu, sem við skoðuðum í gær.

Það var sólbjart en frerkar andkalt í Vilnius og taldi fólk augljóst, að haustið væri að nálgast. Í Kaupmannahöfn er einnig sólbjart en hlýtt, 22 gráður, og mikill mannfjöldi nýtur góða veðursins í miðborginni. Allt frá Ráðhústorgi og niður að nýja leikhúsinu við höfnina, skáhallt á móti óperunni og samastað íslenska sendiráðsins.