Laugardagur, 09. 08. 08.
Fór með Rut í Skálholt, þar sem hún lék með Skálholtskvartettinum klukkan 17.00 verk eftir Haydn og Schübert. Klukkan 15.00 hlustaði ég á Bibertríóið leika hluta úr talnabandssónutum eftir Franz von Biber.
Ég er sammála Ara Trausta Guðmundssyni, sem undrast í grein í Morgunblaðinu, að gagnrýnendur skuli ekki lengur sendir til að skrifa um sumartónleika utan Reykjavíkur. Líklega stafar þessi ákvörðun ritstjóra ekki af metnaðarleysi, hún endurspeglar þröngan fjárhag blaðanna.
Nokkrar umræður hafa orðið um nálgunarbann í tilefni af nýföllnum hæstaréttardómi. Frumvarp frá mér um nálgunarbann er til meðferðar í allsherjarnefnd alþingis. Þegar ég flutti framsöguræðu um frunvarpið 22. janúar sl. sagði ég meðal annars:
„Ákvæði frumvarpsins eru í flestum atriðum samhljóða gildandi reglum um nálgunarbann. Veigamestu breytingarnar sem hér eru lagðar til koma fram í reglum 1. mgr. 2. gr. um aðdraganda að kröfu lögreglu um slíkt bann og heimildir þess, sem leita til hennar í þessu skyni, til stjórnsýslukæru ef lögreglu þykir ekki efni til að bera kröfuna fram.
Fram hefur komið sú gagnrýni að ákvæðið í núverandi mynd sé of þungt í vöfum og til þess fallið að letja brotaþola að fara fram á nálgunarbann auk þess sem tillögur frumvarpsins gangi ekki nógu langt. Fari betur á því að ákærandi taki ákvörðun um nálgunarbann en ekki dómari að beiðni lögreglunnar eins og í núgildandi lögum segir og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Dómari geti síðan endurskoðað þá ákvörðun.“