Þriðjudagur, 19. 08. 08.
Marsibil Sæmundsdóttir er gengin úr Framsóknarflokknum og Ólafur F. Magnússon er genginn í Frjálslynda flokkinn. Ég held, að hvorug breytingin valdi þáttaskilum í íslenskum stjórnmálum, þótt ætla mætti annað af því púðri, sem fréttamenn eyða í frásagnir af þessu.
Margrét Sverrisdóttir, sem er varamaður Ólafs F. í borgarstjórn, en er ekki í sama flokki og hann, segir Ólaf F. vera að leita, að einhverjum, sem geti staðið straum af kostnaði við framboð hans í næstu borgarstjórnarkosningum. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður frjálslyndra, fagnar Ólafi F. en það er hundur í Jóni Magnússyni, þingmanni frjálslyndra. Því heyrist fleygt, að Jón ætli sér formennsku meðal frjálslyndra.
Dagur B. Eggertsson ætlar að beita þeim klækjum við skipan manna í nefndir borgarstjórnar að hafa þar sæti fyrir Marsibil, en hún segist ekki ætla að þiggja boð Dags um inngöngu í Samfylkinguna. Dagur er sagður búa sig undir að verða varaformaður í Samfylkingunni í stað Ágústs Ólafs Ágústssonar.
Hallgrímur Thorsteinsson ber sig illa vegna orða minna í gær um afstöðu hans til dagbóka Matthíasar. Svo virðist sem Hallgrímur og félagar vilji frekar hallmæla Matthíasi en ræða það, sem hann segir. Þá virðast þeir undrast, sem hefur verið á allra vitorði, að til Matthíasar og Styrmis streymdu menn og ræddu málefni líðandi stundar - vafalaust í von um, að sjónarmið þeirra endurspegluðust á síðum Morgunblaðsins.