Miðvikudagur, 27. 08. 08.
Ókum snemma morguns frá Berlín til Potsdam, þar sem eru höfuðstöðvar þýsku ríkislögreglunnar, Bundespolizeipresidium. Var okkur kynnt starfsemi hennar og sérstaklega landamæravarsla á flugvöllum, en með stækkun Schengen er ekki haldið uppi neinni landamæravörslu á landi í Þýskalandi - nema gagnvart Sviss, þar til landið verður fullgildur aðili að Schengen.
Nokkur kvíð var í Þýskalandi í desember sl., þegar landamærastöðvar á landi hurfu innan Schengen-svæðisins. Töldu Þjóðverjar, að ólöglegt fólk myndi streyma inn í land þeirra. Ekkert slíkt hefur gerst og ný ríkir sátt um afnám landamæravörslunnar, en vegna hennar var ríkislögreglan endurskipulögð og tók hin nýja skipan gildi í febrúar á þessu ári.
Á flugvellinum í Frankfurt am Main er unnið að mörgum spennandi verkefnum við landamæragæslu. Til dæmis er unnt að láta skanna lithimnu (iris) sína á vellinum, tekur 10 mínútur, og eftir það geta menn afgreitt sig sjálfir í gegnum vegabréfaskoðun við komu eða brottför með því að ganga að sérstökum skanna við vegabréfahliðin. Rúmlega 20.000 manns hafa þegar nýtt sér þetta tilboð.
Síðdegis hittum við forystumenn leyniþjónustu Berlínarborgar - Senatsverwaltung für Inneres - Abteilung Verfassungsschutz. Var okkur sagt frá heimildum hennar til upplýsingaöflunar, eftirliti með starfsemi hennar af hálfu þingsins i Berlín, tengslum við leyniþjónustur í öðrum sambandslöndum Þýskalands og við alríkisstofnanir á þessu sviði.
Telji þjónustan í Berlín nauðsynlegt að hlera síma eða hafa afskipti af póstsendingum einstaklinga, ber hún tilmæli um það með leynd undir fimm manna nefnd, sem kjörin er af þingi Berlínar. Síðan fylgist sérstök þingnefnd með störfum nefndarinnar. Það er misjafnt eftir sambandslöndum, hve víðtækt umboð þessar þjónustur hafa.
Sérstaða Þýskalands í þessum efnum felst í tengslunum milli sambandsríkisvaldsins og valds einstakra sambandslanda, sem hvert um sig hefur skipað lögreglumálum á sinn hátt. Lengi hefur verið rætt um nauðsyn samhæfingar um landið allt í tveimur málaflokkum: menntamálum og lögreglumálum.