13.8.2008 13:50

Miðvikudagur, 13. 08. 08.

Þingmannaráðstefnan um norðurheimskautsmál hélt áfram í dag, en síðdegis var okkur boðið í kynnisferð til Chena Hot Springs Resort, sem er í um klukktíma fjarlægð frá Fairbanks.

Eins og nafnið gefur til kynna er þarna um jarðhitasvæði að ræða. Bernie Karl, forstöðumaður á svæðinu og framkvæmdamaður tók á móti okkur og kynnti hina fjölbreyttu starfsemi, sem hann rekur þarna. Okkur Íslendingum fagnaði hann með sérstakri aðdáun og virðingu vegna þess hve við stæðum framarlega við nýtingu á hreinum orkugjöfum og ekki síst jarðhitanum. Virkjun jarðhita hefði ekki hafist í Alaska fyrr en árið 2006 og einmitt hjá sér. Sýndi hann okkur orkuveituna af miklu stolti. Hann var gjörkunnugur orkubúskap okkar Íslendinga, enda hefur hann heimsótt Ísland til að kynna sér nýtingu jarðhitans. Alaska er fimmta ríkið þí Bandaríkjunum, þar sem jarðhiti er nýttur og sagði Bernie Karl, að hann væri mestur í Alaska.

Nú rekur Bernie Karl þarna heita útilaug, heita potta og inni sundlaug. Þá er unnt að fara í óbyggðaferðir frá staðnum, gangandi eða á hvers kyns farartækjum. Þarna er gistiaðstaða  og matsalir.

Aurora  Ice Museum vakti þó mesta athygli okkar. Það er í raun sjálfbær frystiklefi, sem er knúinn af jarðhita, en hefur verið breytt í ísmyndasafn, bar, aðstöðu til hjónavígslu og ýmislegt annað. Var í einu orði sagt ótrúlegt að koma þarna inn og sjá það, sem fyrir augu bar. Bendi eg áhugasömum að fara inn á vefsíðu staðarins, sjón á netinu er sögu ríkari.

Þarna er mikið um gesti allan ársins hring en á veturna streyma Japanir til Alaska til að sjá norðurljósin.

Þingmannaráðstefnunni lýkur 14. ágúst en þá um morguninn held ég af stað heim á leið og missi því af erindi Guðna Jóhannessonar orkumálarstjóra um jarðhitann og nýtingu hans. Íslendingar hafa látið verulega að sér kveða á ráðstefnunni, meðal annars með tveimur framsöguerindum auk þess sem Sigurður Kári Kristjánsson, formaður Íslandsdeildarinnar, hefur haldið fast á málum við gerð lokaályktunar ráðstefnunnar.