24.8.2008 20:52

Sunnudagur, 24. 08. 08.

Silfurverðlaun í handbolta karla á Ólympíuleikum er eitt af þeim afrekum, sem erfitt er að setja í samhengi til að átta sig á stærð þess. Ólafur Stefánsson, fyrirliði landsliðsins, nálgast stærðina best með heimspekilegum hugleiðingum um hetjuna innra með hverjum og einum. Ein viðmiðun er, að á leikunum í Peking komust lið frá 87 af 204 þátttökulöndum á verðlaunapallinn. Ég segi við alla, sem hlut eiga að sigrinum glæsilega: Innilega til hamningu!

Starfsbróðir minn Össur Skarphéðinsson hefur verið í uppnámi vegna velgengni strákanna okkar, eins og þessar færslur á síðu hans sýna. Þessi er skrifuð undir leiknum við Frakka:

„Í hálfleik róa ég mig niður með kaffi og les Moggann, sem mér sýnist að fjalli bara um Hönnu Birnu. Ekki boðar það gott fyrri seinni hálfleikinn.“

Hér er Össur pirraður yfir, að menntamálaráðherra ákvað að fara til Peking, þegar augljóst var, að liðið myndi keppa um gullið við Frakka:

„Nú verður Þorgerður Katrín að vinna daginn og slaginn um athygli fjölmiðlanna til að heimastjórnin haldi sjó, og snýti ekki rauðu einn ganginn enn.“

Í tilefni af þessum orðum Össurar skrifar samfylkingarmaðurinn Andrés Jónsson pistil, sem birtist á eyjan.is undir fyrirsögninni: Þorgerður vann. Þar segir:

„Í tengslum við sigurgöngu handboltalandsliðsins hafa birst myndir af og viðtöl við fimm af sex ráðherrum Sjálfstæðisflokksins frá því á föstudag, - alla nema Guðlaug Þ. Þórðarson. Í tilefni af úrslitaleiknum ræddi fréttastofan í kvöld við Þorgerði Katrínu en hafði ekkert við forsetahjónin að tala.“

Össur nær gleði sinni á ný, þegar Þorgerður Katrín og Hanna Birna efna til hátíðar í Reykjavík við heimkomu strákanna. Þar verður hann örugglega hrókur alls fagnaðar, enda fer það honum betur en pirringurinn.

Fór klukkan 17.00 í Hallgrímskirkju, þar sem efnt var til tónleika á vegum söngmálastjóra þjóðkirkjunnar með þátttöku söngfólks úr kirkjukórum víðsvegar um landið, einsöngvara, kammersveitar og organleikara. Fluttar voru tvær kantötur Bachs og nýtt verk Mistar Þorkelsdóttur, hugleiðing um tónlist hans við sálminn Heyr himna smiður eftir Kolbein Tumason.

Hér er lýsing á menningarnótt. Þar er brugðið ljósi á framgöngu við lögreglu, þegar fólk er í menningarskapi. Undrast nokkur, að hugað sé að öflugri valdbeitingartækjum fyrir lögregluna?