5.8.2008 18:45

Þriðjudagur, 05. 08. 08.

Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, hefur farið svo mikinn undanfarið, að innan flokksins hafa menn orðað hana við leiðtogahlutverk á landsvísu. Hið einkennilega er, að gauragangurinn hefur að mestu snúist um misskilning. Það er til dæmis fráleitt hjá Guðríði að kenna starfsemi öryggisþjónustufyrirtækja við „falskt öryggi“.

Guðríður hafði varla sleppt orðinu um löggæslumál, þegar hún hóf að skammast yfir framgangi starfsmanna Kópavogsbæjar, það er að þeim voru falin ábyrgðarmeiri störf, án þess að auglýsa viðkomandi stöður. Fráleitt er, að telja þetta lögbrot eins og Guðríður taldi.

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, ræðir framgöngu Guðríðar í grein í Morgunblaðinu í dag:

„Í öllum þeim moðreyk sem Guðríður Arnardóttir, leiðtogi Samfylkingarinnar í Kópavogi, þyrlar upp um ráðningar í stöður hjá Kópavogsbæ, vekur mesta athygli hvað hún hefur hrakist langt frá upphaflegum upphrópunum sínum um fordæmalausa ákvörðun og „klárt" lögbrot meirihlutans í bæjarstjórn. Eftir því sem fleiri hafa rekið þær stórkarlalegu yfirlýsingar hennar ofan í hana, bæði lögfræðingar og sveitarstjórnarmenn, hafa slíkar ásakanir vikið fyrir hinu gamalkunna og lúna stefi hennar um skort á góðum siðum í opinberri stjórnsýslu. Það huglæga mat hennar getur átt við um allar sveitarstjórnir á landinu sem einhvern tímann hafa nýtt sér rétt sinn til að veita starfsfólki stöðuhækkun. Af því sést hve ósanngjarnt og rangt það er.“