16.8.2008 22:35

Laugardagur, 16. 08. 08.

Glæsilegt hjá karlalandsliði okkar í handbolta að vera komið í átta liða úrslit á Ólympíuleikunum eftir jafntefli við Dani í dag. Morgunblaðið segir, að þessi árangur hafi náðst á hinn „ótrúlegasta hátt“.

Ég skrifaði í dag pistil um fjórða meirihlutann í Reykjavík á þessu kjörtímabili.

Samfylkingarmaðurinn Andrés Jónsson beinir því til mín á eyjan.is, að ég hætti að svara fjölmiðlamönnum á tölvunni. Hann segir: „Það er veikleiki að heimta að fá spurningarnar fyrirfram í tölvupósti.“ Ég bið aldrei um spurningar fyrirfram í tölvupósti, ég bið einfaldlega um þær í tölvupósti. Samþykki ég að ræða við ljósvakamiðla, bið ég aldrei um spurningar en er sagt umræðuefnið, eins og eðlilegt er. Ég ræði helst í síma við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni - þann fréttatengda útvarpsþátt, sem nær til flestra og þar sem um beina eða óklippta útsendingu er að ræða. Klipptu sekúndubrotin segja oft meira um áhuga eða skoðanir fréttamannsins en þess, sem við er rætt.