26.8.2008 21:25

Þriðjudagur, 26. 08. 08.

Hitti dr. Wolfgang Schäuble, innanríkisráðherra Þýskalands, í dag. Við ræddum saman í klukkustund í ráðuneyti hans og síðan í tvo tíma í hádegisverði á Hilton-hótelinu við Gendarmemarkt, þar sem áður var Austur-Berlín og sagðist ráðherrann hafa gist á hótelinu á sínum tíma, þegar hann var að semja við stjórn kommúnista í DDR, alþýðulýðveldinu A-Þýskalandi, en hún hefði undir lok ferils síns leyft erlenda fjárfestingu og sóst eftir að fá bandarísk fyrirtæki til landsins.

Schäuble er í forystu innan Schengen-samstarfsins og er mikils virði að njóta stuðnings hans við aðild Íslands að Prüm-lögreglusamstarfinu, en fyrir hans frumkvæði er það orðið að þætti í Evrópusamstarfi lögregluliða.

Í áranna rás hef ég hitt marga stjórnmálamenn, er Schäuble í hópi hinna merkustu þeirra. Honum hafa verið falin erfið verkefni á þýskum stjórnmálavettvangi og býr því yfir ótrúlega mikilli reynslu og þekkingu. Hann varð fyrir skotárás árið 1990 og hefur síðan verið í hjólastól.

Eftir hádegisverðinn gafst tóm til að ganga út á Unter den Linden í áttina að Alexanderplatz, sem var skrautfjöður DDR með sjónvarpsturni, er gnæfði yfir alla Berlín. Á leiðinni rakst ég á DDR-museum við ána Spree. Skrýtið safn um DDR, sem var þó enn skrýtnara og óhugnalegra en safnið. Í raun er ekki unnt að afgreiða ógnarstjórn kommúnista með þvi að gera grín að henni. Hvað yrði sagt, ef Þjóðverjar nálguðust nasistatímann á þennan hátt?

Ég skoðaði einnig sýningu í Deutsche Dom um þróun þýsks lýðræðis. Þar eru sýndar upptökur úr þýska þinginu af frægum umræðum, þar á meðal frá 1983 um tvíþætta ákvörðun NATO um kjarnorkuflaugar í Evrópu. Þar var Otto Schíly meðal ræðumanna fyrir hönd græningja og taldi Evrópu kunna að farast, ef ákvörðun NATO næði fram að ganga. Schily var forveri Schäuble í embætti innanríkisráðherra og jafnvel einarðari en hann um nauðsyn þess að tryggja öryggi Þjóðverja gegn hryðjuverkamönnum.  Sagt er, að ekki sé unnt að veita Schäuble meiri gagnrýni en segja hann taka léttar á öryggismálum en Schily hefði gert!