25.2.2004 0:00

Miðvikudagur, 25. 02. 04.

Hélt með embættismönnum dómsmálaráðuneytisins um hádegisbil til Egilsstaða, aldrei þessu vant var 30 mínútna seinkun á vél Flugfélags Íslands. Við komuna til Egilsstaða héldum við til Þorgerðar Erlendsdóttur héraðsdómara og kynntum okkur starfsemi héraðsdómstóls Austurlands.

Ókum síðan á Eskifjörð og hittum Inger L. Jónsdóttur sýslumann og samstarfsfólk hennar á sýsluskrifstofunni. Funduðum með henni Jónasi Wilhelmssyni yfirlögregluþjóni og öðrum lögreglumönnum en héldum síðan í Norfjörð, fórum á netabryggjuna og kynntum okkur aðstæður, þar sem líki af Litháa hafði verið varpað í höfnina. Fórum í Egilsbúð og þágum kaffiveitingar í boði Guðmundar Bjarnasonar bæjarstjóra og Smára Geirssonar forseta bæjarstjórnar. Fórum síðan í lögreglustöðina í Neskaupstað og ræddum við lögreglumenn og kvöddum þar sýslumann og samstarfsmenn hennar.

Gistum á hótel Héraði, Egilsstöðum.