19.2.2004 0:00

Fimmtudagur, 19. 02. 04.

Flaug klukkan 08.30 frá Heathrow til Brussel og var kominn þangað um klukkan 11.00 að staðartíma. Þórunn J. Hafstein, skrifstofurstjóri hjá EFTA, og fyrrverandi samstarfsmaður minn í menntamálaráðuneytinu, tók á móti mér á flugvellinum og höfðum við tíma til að skreppa í ensku bókabúðina í miðborg Brussel, áður en ég hitt Hauk Guðmundsson, fulltrúa dómsmálaráðuneytisins, í sendiráðinu í Brussel og við bjuggum okkur undir ráðherrafund um Schengen-málefni.

Klukkan 13.00 var tveggja tíma vinnu-hádegisverður, þar sem ráðherrar ræddu óformlega um þau málefni, sem hæst ber, þar á meðal gagnkvæma vegabréfaskyldu og persónuleg kennileiti (biometrics) í vegabréfum. Javier Solana, sem fer með utanríkis- og öryggismál innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, tók þátt í málsverðinum og flutti ræðu um tengsl innra og ytra öryggis.

Að loknum þessum hádegisverðarfundi hófst hinn formlegi fundur. Honum var lokið rúmlega 15.30 og þá sá ég, að tími gafst fyrir mig til að taka vél fyrr frá Brussel en ég hafði ætlað og í stað þess að fara í gegnum London heim ákvað ég að fara um Kaupmannahöfn, sem þýddi að ég lenti rúmlega 22.00 í Keflavík í stað þess um miðnætti.